Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:41]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar. Ég hefði átt að koma inn á þetta í ræðu minni þannig að ég þakka henni enn betur fyrir að hleypa mér að með þetta atriði. Ég tel að hvort tveggja sé mikilvægt, að mæta þeim vanda sem við horfum fram á í undirheimunum og almennt, ekki bara undirheimunum heldur bara í samfélaginu almennt. Þar eru miklar og stórar félagslegar áskoranir, sérstaklega í geðheilbrigðismálum. Það er gríðarlega mikilvægt, og það er sú umræða sem ég var með hér varðandi félagslegu úrræðin og heilbrigðisúrræðin, hvernig við getum nýtt þá fjármuni betur og hvernig við getum farið aðrar leiðir. Þar segi ég: Við þurfum að gefa þeim aðilum sem hafa úrræði fyrir fólk sem er með áskoranir félagslega og í geðheilbrigðismálum, frelsi til að veita þessi úrræði. Heilbrigðisþjónustan og Sjúkratryggingar þurfa að hafa skýrari heimildir og vilja til að kaupa þessi úrræði til að hjálpa þessu fólki. Það er mikilvæg forvörn.