Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:50]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir hans ræðu. En mig langar að spyrja hann: Finnst honum ekki svolítið seint í rassinn gripið að reyna að byrgja brunninn löngu eftir að allir eða flestallir eru dottnir ofan í hann varðandi aðgerðir erlendis? Síðustu tölur voru að 300 og eitthvað manns fóru í aðgerð til útlanda. Það hefði verið hægt að gera 1.000 aðgerðir fyrir þessar 300. Þar áður voru þetta 200–250 aðgerðir erlendis, það hefði verið hægt að gera 700 aðgerðir hér, og svo koll af kolli. Þannig að ríkisstjórnin er búin að vera að í fimm ár og loksins hafa þeir uppgötvað það að það borgar sig að gera þrjár aðgerðir hérna heima frekar en erlendis fyrir sama pening.

Ég spyr hv. þingmann: Hvers vegna í ósköpunum voruð þið ekki búnir að þessu? Hvað rugl var í gangi hjá ykkur? Og hafið þið hugsað út í allar þær kvalir og óþægindi sem þetta hefur valdið fólki?