Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[21:42]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni, fyrir andsvarið. Ég vaknaði einn daginn fyrir ekki svo löngu síðan við að ég var alveg með þvílíka verki í vinstri öxlinni og hægri fætinum og var að bölsótast út af þessu. Svo hugsaði ég með mér allt í einu, það datt niður í huga minn: Ég get ekkert verið að bölsótast út af þessu. Ef Bjarni vissi af þessu þá myndi hann segja að að meðaltali hefði ég það bara fjári gott, af því að á sama tíma var vinstri fóturinn í lagi og hægri öxlin, þannig að helmingurinn var lagi og hinn var í ólagi.

En þetta er bara ekki svona einfalt. Ef við tökum þetta kerfi, sem ég, eins og ég hef sagt, hef lifað í og lent í — og ég man alltaf eftir þegar ég lenti í þessu kerfi og fékk greitt í upphafi, sem sýnir að dropinn holar steininn þegar var hætt að skatta og skerða styrki, að þegar ég fékk þann styrk þá áttaði mig allt í einu á því varðandi kerfið að mér fannst svo skrýtið að hafa fengið styrk en mér fannst ég ekkert hafa það betra, þannig að ég fór að elta það, kerfið, kortleggja hvað væri í gangi. Þá komst ég að því að af því að það var skattað og skert þá og þetta var reiknað sem tekjur þá hafði það áhrif út um allt kerfið. Ég fór að reikna og reikna og reikna og ég komst að því að ég myndi græða, ég held að það hafi verið fjögur- eða fimmþúsundkall þá, ef ég bara neitaði að taka við styrknum. Þá var ég búinn að vera á honum í langan tíma þannig að ég stórtapaði á þessari vitleysu. Þetta sýndi mér það svart á hvítu hversu arfavitlaust þetta kerfi var og þá fór ég að vinna bæði hjá Öryrkjabandalaginu og Sjálfsbjörgu við að reyna að breyta þessu kerfi, að mótmæla því hvernig kerfið væri sett upp. Þess vegna segi ég varðandi borgaralaunin: Jú, það er flott, en við verðum líka að átta okkur á því að við erum með hóp þarna úti sem eru milljarðamæringar og þeir þurfa ekkert á borgaralaunum að halda. Við verðum að sjá til þess að a.m.k. að byrja á því að þeir sem mest þurfa að fá peninga fái þá og reikna rétta framfærslu, lágmarksframfærslu. Og ef við gerum það þá erum við á réttri leið vegna þess að við þurfum að byrja á þeim enda: Hvað þarf til að lifa af, hvort sem þú ert einstaklingur eða í fjölskyldu?