Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[21:55]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lenyu Rún Taha Karim fyrir góða spurningu. Mér er í fersku minni Robert Downey Jr., sem er nú einn farsælasti leikari í Hollywood. Hann var settur í fangelsi í sex ár og mátti dúsa þar, gjörðu svo vel, af því að hann var fíkill og neytti heróíns og annarra vímugjafa. Ég hef séð menn fara mjög illa og ég segi stundum þegar ég er innan um menn sem hafa neytt vímuefna, m.a. kókaíns sem ég prufaði aldrei á sínum tíma en hefði hugsanlega gert ef ég hefði haft aðstöðu til þess, og heyri þá tala um þetta: Var ég að missa af einhverju? Og þeir koma unnvörpum til mín og klappa mér á öxlina og segja: Þú misstir ekki af neinu. Fíkniefni fara illa með menn og það er mjög ósanngjarnt að menn séu settir í fangelsi fyrir það eitt að vera fíklar og það hefur komið fyrir, eins og ég veit að Píratar hafa gjarnan talað um, að fólk sem lendir í vandræðum með ofnotkun þorir ekki að hafa samband við yfirvöld af því að það er svo hrætt við að vera ákært fyrir lögbrot. Það verður að finna einhverja leið til þess að þetta verði þannig að fólk sé frjálst. Þess vegna segi ég: Þessi afglæpavæðing er alls ekki galin hugmynd.