Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:04]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Já, það er dálítið skondið, getum við kallað það, að það vímuefni sem er löglegt sé það sem veldur hvað mestum skaða. Mig langaði aðeins að snerta í seinna andsvarinu á punkti sem hv. þingmaður kom með varðandi fjöldann. Þurfum við ekki bara að segja fíklunum að þeir megi ekki vera svona margir, að ríkið sé ekki með svona háa tölu í fjárlögunum hjá sér? Er það ekki bara svipað eins og við erum að gera við fatlaða? Þeir mega bara vera níutíu og eitthvað núna af því það er fjármagnið sem búið er að útvega í persónulegu þjónustuna. Er ekki eitthvað að kerfi, þá er ég að tala um fjárlagakerfið og hvernig við ákveðum fjármagn, þar sem eru búnir til einhverjir stoppmekanismar sem eru ekki í neinum tengslum við raunveruleikann? Hvernig væri ef skattkerfi okkar væri þannig að um leið og 225.000. fyrirtækið í röðinni ætlar að fá að skila inn skatti kemur allt í einu: Nei, við erum bara með pláss fyrir 224.999 í kerfinu hjá okkur. Þannig að ég spyr hv. þingmann: Er ekki eitthvert rugl í kerfi sem fastsetur einhverjar tölur, ég man ekki nákvæmlega hvað hv. þingmaður sagði, hvort það voru 1.600 eða einhvers staðar þar í kring. Er ekki eitthvað að kerfi sem miðar sig ekki við raunveruleikann þegar kemur að því að fjármagna hlutina?