Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:56]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar fyrir andsvar sitt og spurninguna. Varðandi það að hv. formanni nefndarinnar hafi tekist að lesa heildstæða stefnu út úr breytingartillögum Samfylkingarinnar en ekki út úr tillögum Flokks fólksins, ja, það er bara hlutur sem ég skil ekki alveg. Við erum þarna með kjarnamálefni okkar klárlega, baráttumál okkar og höfum gert grein fyrir þeim. Ég sé ekkert meiri heildstæða stefnu í tillögum Samfylkingarinnar en hjá Flokki fólksins eða Pírötum, svo það liggi fyrir.

Varðandi breytingartillöguna sem lýtur að fjölmiðlun á málefnasviði 19, 19.10 nákvæmlega, þá hef ég skoðað það nákvæmlega og var með spurningar á fundi fjárlaganefndar í morgun hvað það varðar og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég hyggst ekki draga hana til baka. Við verðum tilbúin með frumvarp til breytinga á lögum um Ríkisútvarpið. Þetta fer ekki inn í bandorminn, þ.e. krónutöluhækkunin, sem er þá líka breyting á lögum um RÚV. En verði tillagan samþykkt þá munum við vera með breytingartillögu á lögum um RÚV sem lýtur að nákvæmlega þessu, að tryggja það að 290 milljónir fari ekki til RÚV heldur til Kvikmyndasjóðs. Það er ekkert meira mál að breyta lögum um RÚV hvað þetta varðar en bandormi, ég veit að í bandormi eru fyrst og fremst krónutölubreytingar en það breytir því ekki að löggjafarvaldið getur breytt því að RÚV fái ekki þessar 295 millj. kr., sem er víst réttari tala. (Forseti hringir.) Ég svara því bara þannig. Það verður lagt fram frumvarp verði tillagan samþykkt.