Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[23:02]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023 og sýnist sitt hverjum um það sem í því er en einnig um það sem ekki er þar að finna. Meginmarkmið þessa frumvarps til fjárlaga snúa að fjórum lykilþáttum eða lykilmarkmiðum sem eru eftirfarandi:

Styrkur ríkissjóðs endurheimtur með því að lækka rekstrarhalla og stöðva hækkun skuldahlutfalls á næsta ári. Ríkisfjármálum beitt gegn þenslu og verðbólgu. Dregið er úr mótvægisaðgerðum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru á næsta ári og aðhaldi beitt til að styðja við markmið Seðlabanka Íslands um að draga úr verðbólguþrýstingi. Staðinn verður vörður um heimilin í landinu, einkum með því að stuðla að því að viðkvæmir hópar séu varðir fyrir áhrifum verðbólgu. Lögð er áhersla á að innviðir og grunnþjónusta séu styrkt og á að viðhalda raunvirði bóta almannatrygginga. Áframhaldandi lífskjarasókn. Mikill tekjuvöxtur hefur styrkt stöðu heimilanna á undanförnum árum og hefur staða þeirra aldrei verið sterkari. Með því að stuðla að áframhaldandi hagvexti verður Ísland í mun sterkari stöðu en mörg nágrannalönd okkar.

Þetta eru athyglisverð markmið. Maður hlýtur að spyrja sig að því hvort fjárlagafrumvarpið styðji yfir höfuð við þessi markmið. Ég vil leyfa mér að efast um það.

Mig langar í byrjun ræðu minnar hér í dag, í kvöld réttara sagt, að minnast á það vinnulag sem viðhaft er við fjárlagagerðina. Einhverra hluta vegna virðist það vera svo að fjárlagafrumvarp hvers árs er komið í gegnum þingið á síðustu vinnudögum þingsins fyrir jól og þá virðist engu skipta hvort farið er af stað seint eða snemma. Í fyrra var þingið ekki sett fyrr en 23. nóvember og var fjárlagafrumvarpið afgreitt á mjög stuttum tíma í mikilli tímaþröng. Þinginu var aftur á móti afhent þetta frumvarp við þingsetningu 13. september, rúmlega tveimur mánuðum fyrr, en það virðist engu hafa breytt um vinnulagið. Þingið er samt komið í tímaþröng með afgreiðslu fjárlaga og tímasetningar farnar að riðlast. Þá þarf einnig að breyta ýmsum lögum vegna fjárlaga, svokölluðum bandormi. Þar eru tímasetningar einnig farnar að riðlast. Mér finnst sem nýjum þingmanni að það hljóti að vera hægt að nota annað verklag en hér er viðhaft.

Þá vil ég einnig minnast á þær breytingar sem verið er að gera á milli umræðna fjárlaga. Nema þessa breytingar um u.þ.b. 50 milljörðum og koma þær nánast eða mestmegnis frá fjármálaráðuneyti. Þau sem veittu umsagnir um frumvarpið voru í raun að veita umsagnir um annað frumvarp en nú er til umræðu, svo miklar eru þær breytingar sem verið er að gera á milli umræðna.

Ég vil, virðulegur forseti, gera að umtalsefni fjármagnsliði og þann vaxtakostnað sem við erum að glíma við, en fjármagnsliðir breytast verulega á milli umræðna þar sem vaxtagjöld aukast um 13,6 milljarða og nema þá heildarvaxtagreiðslur á árinu 2023 79,7 milljörðum. Þetta eru mjög háar tölur og eru þær afleiðing þeirrar verðbólgu sem nú ríkir. Þá er ágætt að velta fyrir sér þeim vaxtamun sem er á milli Íslands annars vegar og nágrannaríkja. Vaxtagjöldin hér eru t.d. um átta til níu sinnum meiri en á hinum Norðurlöndunum. Árið 2020 voru vaxtagjöldin að meðaltali um átta sinnum meiri hér en þar, eða 4% af vergri landsframleiðslu á Íslandi, en ekki nema 0,5% af vergri landsframleiðslu á hinum Norðurlöndunum. Árið 2021 voru svo vaxtagjöldin að meðaltali um níu sinnum hærri hér en þar, eða um 3,8% af vergri landsframleiðslu á Íslandi gegn 0,4% af vergri landsframleiðslu á hinum Norðurlöndunum. Mestur er munurinn á milli Íslands og Svíþjóðar, alls um 14–18 sinnum hærri hér. Í Svíþjóð nema þau 0,28% af vergri landsframleiðslu árið 2020, og svo 0,21% af vergri landsframleiðslu árið 2021. Í Danmörku er svo um 0,55% af vergri landsframleiðslu árið 2020 og 0,41% af vergri landsframleiðslu 2021. Í Finnlandi 0,67% og svo 0,51% árið 2021. Í Noregi var þetta um 0,46% af vergri landsframleiðslu árið 2020 og svo 0,57% árið 2021.

Staðan hér er sú að stýrivextir hafa verið hækkaðir upp í 6% frá því að vera 0,75% þegar þeir voru lægstir. Við glímum við verðbólgu upp á 9,3% og hefur verðbólga mælst yfir 9% frá því í júlí þrátt fyrir að hér sé engin orkukreppa eins og Evrópa er að glíma við þessa dagana. Við höfum séð krónuna veikjast um tæp 9% gagnvart evru og um 14% gagnvart bandaríkjadal frá því í byrjun árs 2020, sem gerir auðvitað allan innflutning miklu dýrari og rýrir virði þeirra íslensku króna sem launafólk þénar í alþjóðlegum samanburði. Þetta hefur ekki bara áhrif á lán heimilanna heldur hefur þessi staða líka áhrif á kaupmátt launa almennings sem hefur verið að rýrna allt þetta ár. Þau sem þurfa síðan að lifa á berstrípuðum bótum eru í erfiðri stöðu, svo ekki sé minnst á þau þúsund leigjanda sem bíða þess í örvæntingu að leigan hækki um tugi þúsund um næstu áramót.

Þá hefur matarverð hækkað, afborganabyrði lána hefur aukist, húsaleiga er nú í hæstu hæðum og mun halda áfram að hækka. Þetta er sá veruleiki sem almenningi er boðið upp á; hæðir og lægðir og nánast ómögulegt að gera einhver framtíðarplön.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir þessa stöðu hefur ríkisstjórnin haldið því fram að staða heimilanna hafi aldrei verið betri, aldrei. Ég vil leyfa mér, af því að ég hef ágætistíma hér til að fjalla um fjárlög, að fara yfir nokkur atriði frá umsagnaraðilum sem hafa ýmislegt segja um þetta fjárlagafrumvarp. Ég ætla að byrja á Samtökum atvinnulífsins, en þar segir, með leyfi forseta, m.a.:

„Útgjöld ríkissjóðs hafa vaxið um 11% frá árinu 2019, að teknu tilliti til þróunar verðlags. Á sama tíma jukust tekjur aðeins um 6%. Undirliggjandi vandi sem tekinn var að myndast fyrir heimsfaraldur er því enn óleystur. […] Í ljósi þess að í fjárlagafrumvarpinu segir að „[n]ýjum verkefnum verði fundið svigrúm með því að tryggja umbætur í ríkisrekstrinum með markvissu endurmati útgjalda ....“ þá skýtur skökku við að engin umfjöllun er um verkefni sem snúa að endurmati útgjalda. Það ber með sér lítinn metnað til að [koma] böndum á útgjaldavöxt og forgangsröðun fjármuna. […] Tekjuhorfur ríkissjóðs hafa batnað um 165 milljarða kr. frá fjárlögum 2022 til fjárlaga 2023. Það eru engin nýmæli að aukinn hagvöxtur skapar auknar skatttekjur og veitir því ríkinu aukið svigrúm. Því miður er reynslan hér á landi sú að slíkt svigrúm er frekar notað til aukinna útgjalda fremur en að búa í haginn. Engin breyting virðist vera þar á. […] Þegar aðstæður breytast skyndilega og draga þarf úr útgjöldum er auðveldara að slá afmörkuðum fjárfestingarverkefnum á frest fremur en að ráðast í nauðsynlegar en pólitískt erfiðar umbætur á rekstri. Framtíðarhagvöxtur byggir hins vegar að hluta á fjárfestingum í innviðum og því er mikilvægt að tryggja nægt svigrúm í rekstri til nauðsynlegs viðhalds núverandi eigna sem og nýrra og arðbærra verkefna sem geta byggt undir framtíðar hagvaxtargetu. Það ætti því að vera kappsmál að finna nauðsynlegum framkvæmdum og fjárfestingum rými í bókhaldi hins opinbera og leita heldur tækifæra til hagræðingar og betri nýtingar á fjármunum hins opinbera í öðrum útgjaldaliðum.“

Í umsögn Alþýðusambands Íslands segir:

„Í umsögninni benti ASÍ á að brýnt væri að opinber fjármál myndu ekki ýta undir þenslu samhliða aukinni verðbólgu og vaxandi efnahagsumsvifum. Þar varaði sambandið við því að farin yrði leið niðurskurðar og aukinna álaga á heimili. Sú leið myndi ekki leggja grunn að stöðugleika á vinnumarkaði … […] Sú stefnumörkun sem ASÍ varaði við birtist nú í frumvarpi til fjárlaga. Tekjuöflun felst einkum í hækkun gjalda (krónutölugjöld og nefskattar) og aukinni skattlagningu á ökutæki og notkun bifreiða. Á útgjaldahlið er fjárfestingum frestað, aðhald er aukið og framlög lækkuð að raunvirði til mikilvægra málaflokka. […] Hins vegar er ljóst að hækkun stýrivaxta með tilheyrandi áhrifum á vexti húsnæðislána hefur veruleg áhrif á útgjöld heimila. Fyrir þá aðila sem komu inn á húsnæðismarkað við lágt vaxtastig og hátt húsnæðisverð getur hækkun mánaðarlegrar greiðslubyrði hæglega hlaupið á annað hundrað þúsund króna. Með réttu ætti vaxtabótakerfið að dempa áhrif aukinna vaxtagjalda heimilanna en gerir það ekki. Ástæðan er sú að fjárhæðir vaxtabótakerfisins, t.d. vaxtabætur, tekju- og eignamörk, hafa ekki haldið í við þróun launa eða eignaverðs.“

BHM, eða Bandalag háskólamanna, svo það sé nú upplýst, segir eftirfarandi í sinni umsögn:

„Ekki hefur verið vilji hjá stjórnvöldum til að taka á undirliggjandi afkomuhalla. Það veldur BHM vonbrigðum og sérstaklega ef stjórnvöld vilja sannarlega beita ríkisfjármálum gegn verðbólgunni og auka sanngirni í kjölfar heimsfaraldurs og í aðdraganda kjarasamninga. […] Skattahækkunum [er] velt yfir á almenning á tíma verðbólgu: 12 milljarða kr. skattahækkunum er velt yfir á almenning á árinu 2023. Líklegt er að þær verði verðbólguvaldandi til skamms tíma og bæti þannig gráu ofan á svart. […] Hátt útgjaldastig, ríkissjóður í halla og mikil aukning peningamagns á síðustu þremur árum er hættuleg samsetning. Afla þarf meiri tekna til að vinna gegn þenslu, rétta af undirliggjandi afkomuhalla og stuðla að félagslegu réttlæti. […] Hlutfall íbúðaverðs og launavísitölu er nú 20% hærra en í upphafi kjaralotunnar. Kaupmáttur ungs fólks gagnvart húsnæði dróst saman um 35% frá 2011 til 2021. Líklegt er að samdrátturinn standi í 40% á árinu 2022.“

BSRB segir eftirfarandi:

„Skammur tími var til undirbúnings síðustu fjárlaga þar sem kosið var að hausti og því mætti vænta þess að þau fjárlög sem hér er fjallað um endurspegli betur stefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist í stjórnarsáttmála. Svo virðist sem skortur sé á efndum auk þess sem áþreifanleg vöntun er á að sýn til skemmri tíma sé tengd við langtímahorfur og að helstu samfélagslegu áskoranir okkar, líkt og loftslagsbreytingar og öldrunar þjóðarinnar, séu ávarpaðar heildstætt. […] Það mun reynast skammgóður vermir og flytja ábyrgðina á úrlausnum og alvarlegum afleiðingum úrræðaleysis yfir á komandi kynslóðir. […] Samkvæmt Hagstofu Íslands hefur kaupmáttur aukist um 6,5% frá mars 2019 til júlí 2022. Vegna skarpt hækkandi verðbólgu hefur kaupmáttur rýrnað um rúm 4% það sem af er þessu ári en verðbólga mældist nú í september 9,3% á ársgrundvelli. Það sér því ekki fyrir endann á kaupmáttarrýrnun launafólks. […] Áætlað er að boðaðar hækkanir ríkisstjórnarinnar á opinberum Þróun vísitölu kaupmáttar á kjarasamningstímabilinu gjöldum verði til þess að vísitala neysluverðs hækki um 0,4 prósent sem mun að óbreyttu rýra kaupmátt enn frekar og þá eru horfur á neikvæðri þróun kaupmáttar út samningstímabilið. […] Þá má geta þess sérstaklega að mikil óvissa er í tekjuáætluninni vegna margþættrar óvissu í efnahagsmálum vegna efnahagsþróunar í helstu viðskiptalöndum okkar. Mikilvægt er að ríkisstjórnin myndi sér skoðun og upplýsi með hvaða hætti verði brugðist við frávikum frá áætluninni. Til að mynda hver áherslan verður hvað varðar umframtekjur reynist hagvöxtur áfram meiri en spár gera ráð fyrir eða hvernig brugðist verður við tekjufalli. Er það mikilvægt hvað varðar fyrirsjáanleika og til að fyrirbyggja handahófskenndar ákvarðanir.“

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu létu m.a. eftirfarandi setningu frá sér fara:

„Mikil vonbrigði að frumvarpið standi þannig að samningar geti ekki staðið lengur. Það vantar allt að 2,4 milljarða til að almennilega sé hægt að standa við þá hvað varðar hjúkrunarheimilin.“

Virðulegur forseti. Ég ætla að enda hér á nokkrum orðum úr umsögn Viðskiptaráðs þar sem segir:

„Grunnforsendur að baki fjárlagafrumvarpi eru umdeilanlegar og háðar töluverðri óvissu. Beita þarf meiri varúð en gert er í frumvarpinu. Ólíklegt er að forsendur verðbólguspár þessa árs gangi eftir. Aðhald skortir. Ófyrirséðum tekjuauka ríkissjóðs er varið í aukin útgjöld. Ekki stendur til að vinda ofan af tímabundnum útgjaldaauka vegna áhrifa heimsfaraldurs. Frumvarpið hvetur til óhóflegrar þenslu á tímum verðbólgu og hás vaxtastigs og vinnur þannig gegn peningastefnu Seðlabankans. Boðaður útgjaldavöxtur er líklegur til að hafa neikvæð áhrif á vinnumarkað, þrótt atvinnulífs og kaupmátt. Vextir af stórum hluta íbúðalána koma til endurskoðunar á næstu þremur árum.“

Virðulegi forseti. Þá langar mig til að drepa niður þar sem fjallað er um áfengisgjald í fríhöfn sem á samkvæmt frumvarpinu að fara úr 10% í 40%, ekki það að ég sé sérstakur talsmaður þess að brennivín sé selt ódýrt, heldur hitt að baki þeirri breytingu eru ákveðnir aðilar sem gæti orðið fyrir verulegum skaða. Þessi hækkun sem er verið að boða á áfengisgjaldi hefur mætt mikilli andstöðu, m.a. hjá Isavia, Félagi atvinnurekenda og innlendum framleiðendum áfengis sem óttast mjög um stöðu sína ef til þessa hækkana kemur. Er m.a. bent á að líkur séu á að sala áfengis í flugstöð flytjist úr landi og því muni sá tekjuauki sem áætlað er að verði til vegna þessara breytinga verða að engu. Framleiðendur selja margir hverjir stærstan hluta sinnar framleiðslu til erlendra ferðamanna í flugstöð og það gæti ráðið því hvort þeir lifa eða deyja að sú sala haldi áfram. Því er mikilvægt að þessi ákvörðun verði endurskoðuð, en ekki er hægt að sjá að ríkisstjórnin sé í einhverjum þeim hugleiðingum. Því verður væntanlega lögð fram breytingartillaga um að þessi ákvörðun verði dregin til baka.

Mig langar að minnast á, eins og ég hef oft gert áður, málaflokk fatlaðra. Í minnisblaði sem NPA-miðstöðin sendi velferðarnefnd í dag var eftirfarandi texta að finna:

„Samkvæmt umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 6. desember 2022, var meðalkostnaður NPA-samninga 30,6 millj. kr. árið 2021. Því má ætla að um vanáætlun sé að ræða í mati á áhrifum frumvarpsins sem gerir ráð fyrir að meðaltalskostnaður á samning séu 30 milljónir fyrir árið 2023. Afar ólíklegt er því að þær 375 milljónir sem mælt er fyrir dugi til að mæta þeim 50 samningum sem gert er ráð fyrir að náð verði árið 2023 með framlaginu. Auk þess kemur stytting vinnuvikunnar inn í þetta og kjarasamningsbundnar hækkanir sem orðið hafa á launum aðstoðarfólks. Ljóst er að endurskoða þarf mat á áhrifum þegar áhrif slíkra þátta hafa komið fram.“

Mig langar af þessu tilefni að nefna að það átti að vera búið að búa til 172 NPA-samninga árið 2022 en þeir eru innan við 100, væntanlega 90 og eitthvað. Og einhverra hluta vegna hefur talan ekki staðist, 172 samningar, þeir hafa ekki orðið til vegna þess að það var alltaf verið að horfa á upphæðirnar sem var búið að ákveða að eyða í málaflokkinn. Og af því að upphæðin var búin og samningarnir voru dýrari hver og einn, þá var bara sagt stopp.

Þá spyr maður núna: Hvað á að ráða ferðinni í þessu fjárlagafrumvarpi? Eru það samningarnir 50 eða 375 milljónirnar? Ef þetta er eins og NPA-miðstöðin er að segja hér, að í stað þess að miða við það sem stendur í skýrslu Haraldar Líndals um að hver samningur hafi að meðaltali kostað 30 millj. kr. á árinu 2020 en kostar 30,6 millj. kr., þá er ljóst að upphæðin sem gert er ráð fyrir dugar ekki. Við vitum einnig að samningar fólks sem starfar við þennan málaflokk eru lausir. Flestir, alla vega á höfuðborgarsvæðinu, eru félagsmenn í Eflingu og þeir kjarasamningar eru lausir. Við vitum svo sem ekki núna hversu miklar launahækkanir þeir hópar fá en það má reikna með, ef það verður í einhverju samræmi við þann kjarasamning sem Starfsgreinasambandið er búið að gera, þar sem ég held að prósentan hafi verið 11% þegar talan hefur verið nefnd, þá mun þetta hafa veruleg áhrif á þessar 30 milljónir sem nefndar eru í þessum samningi. Ég velti því fyrir mér á þessum tímapunkti: Hvað á að stjórna för þar? Eiga fjárlögin að ráða með 375 milljónirnar eða á fjöldinn að ráða? Á að gera 50 samninga eða á bara segja að þegar 375 milljónirnar eru búnar þá verði ekki gert neitt meira?

Virðulegur forseti. Mig langar svona í endann af ræðu minni, sem er langt komin, til að minnast á stöðu Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Skólastjórnendur upplýstu þingmenn Suðurkjördæmis um stöðuna og leituðu liðsinnis þeirra. Þar stunda nú 970 nemendur nám við skólann en ekki er verið að greiða fyrir fleiri en 940. Ráðuneytið hefur tekið þá ákvörðun að nota viðmiðunarárin 2020 og 2021, sem voru Covid-ár. Brottfall úr skólunum var því eðlilega mikið. Því verður niðurskurður á framlagi til skólans þar sem ekki er gert ráð fyrir fleirum en 880 nemendum í skólanum og því má halda því fram að skólann vanti framlag með 90 nemendum. Þá var ekki gert ráð fyrir neinni fjölgun frá því sem nú er. Þá er einnig rétt að geta þess að fjöldi nemenda sem stunda nám við skólann er af erlendu bergi brotinn og þarf kannski meiri stuðning og aukna aðstoð vegna þess og því ætti í raun að koma til aukið framlag vegna þess. En það er ekki að sjá að það sé neinn vilji til þess og það er miður. Á sama tíma er hægt að lesa út úr fjárlagafrumvarpinu að ákveðnir framhaldsskólar annars staðar á landinu fá aukin nemendaígildi en alls ekki Fjölbrautaskóli Suðurnesja.

Mig langar líka aðeins að nefna þær krónutölubreytingar sem verið er að boða í þessu frumvarpi. Þær snúa fyrst og fremst að áfengi, tóbaki og bensíni eða eldsneyti og væntanlega útvarpsgjaldi líka. Allt þetta orkar tvímælis að mínu mati á þessum tímapunkti. Ríkisstjórnin hefur undangengin ár verið að horfa til verðbólgumarkmiða Seðlabankans þegar hefur komið að þessum krónutöluhækkunum og það hefur verið þá hluti af því að vinna með Seðlabankanum við að viðhalda stöðugleika og reyna að halda verðbólgu innan þeirra marka og markmiða sem sett hafa verið. En nú bregður ríkisstjórnin út af vananum einhverra hluta vegna og mér þykir miður að sjá að það eigi að fara að vísitölubinda verðlagsbreytingar í fjárlagafrumvarpinu með einhverjum hætti. Gert er ráð fyrir samsvarandi verðbólgu á næsta ári og ríkissjóður ætlar ekki með neinum hætti að reyna að koma til móts við almenning með því að standa með honum og standa þá með Seðlabankanum í baráttu hans við að ná niður verðbólgu. Þannig að það má segja að Seðlabankinn standi nokkuð einmana í þeirri baráttu.

Við erum núna á þeim tímapunkti að verið er að gera kjarasamninga og jafnframt er verið að gera áætlanir fyrir hjá sveitarfélögunum fyrir næsta ár. Fjárhagsáætlanir sveitarfélaga eru núna í fullum undirbúningi og það að ríkið skuli með þessu framferði breyta þessu með þessum hætti, mun án efa hafa áhrif bæði inn í kjarasamninga og inn í gjaldskrár sveitarfélaganna, gjaldskrárbreytingar sveitarfélaganna fyrir næsta ár. Ég fæ ekki séð að sveitarfélögin ættu þá að gera eitthvað öðruvísi af því að þau þurfa auðvitað verja sína tekjustofna ef ríkið telur sig þurfa að gera það með þessum hætti. En ég hefði talið að það væri akkur fyrir ríkisstjórnina að reyna að ná niður verðbólgu, ná niður vöxtum. Það myndi hjálpa til. Það væri hægt að lækka kostnað með því að ná niður vöxtum, sem er auðvitað bara afleiðing af þeirri verðbólgu sem er til staðar. Þannig að ég átta mig ekki á því hvernig stendur á því að verið er að gera svona. Mér fannst ég heyra formann fjárlaganefndar nefna það í gær að hún hafi alltaf verið hlynnt því að miða þessi krónutölugjöld við verðlagsbreytingar. (Gripið fram í.) En ég spyr: Af hverju hélt hún því ekki fram í fyrra eða hittiðfyrra? Ég hef ekki heyrt hana segja þetta áður þannig að ég er bara frekar hissa á því að tekin sé þessi afstaða núna þegar það þarf að standa með almenningi í landinu. Staða heimilanna hefur bara farið hríðversnandi. Það er enginn að fara að hætta að drekka núna. Fólk heldur áfram að kaupa sér sinn bjór eða sitt rauðvín eða sitt áfengi, hvernig sem það er í laginu, en það mun bitna harðar á þeim sem lægst hafa launin. Það liggur bara fyrir. Þannig að það er ekki verið að styðja við þá sem verst standa í þessu samfélagi nema síður sé þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað og því er lýst í þessum fallegu markmiðum sem sett eru fram.

Virðulegur forseti. Ég læt hér staðar numið en vil þó vekja athygli á því að það er fjöldi mála sem liggur utan garðs í þessu fjárlagafrumvarpi. Ég hef t.d. nefnt, eins og ég gerði í störfum þingsins í gær, að það er engin heilsugæsla í Suðurnesjabæ, sem er auðvitað fáránlegt. Ég hef heldur ekki nefnt Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem hefur verið fjársvelt svo árum skiptir. Það er margt sem hægt er að ræða en ég held að ég láti þetta duga. Við hefðum þurft að ná inn fleiri málum, þeim sem hefðu þurft að fá stuðning hér, en þau hljóta því miður ekki náð fyrir augum þessarar ríkisstjórnar, a.m.k. ekki í þessu fjárlagafrumvarpi. Vonandi bíða þau betri tíma.