Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[23:41]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. 10. þm. Suðurk., Guðbrandi Einarssyni, fyrir góða ræðu og margt áhugavert sem þar kom fram. Eitt af því sem hv. þingmaður byrjaði á að ræða var þetta verklag og þó svo að við hefðum haft mun styttri tíma í fyrra þá erum við jafnvel seinni á ferðinni í ár með hlutina og það kom mikið af breytingum núna í lok nóvember eftir að búið var að senda inn umsagnir, eftir að búið var að fá gesti. Ég skrifaði grein í vikunni um það hvort samráð ætti heima í stjórnmálum og benti þar á að um það leyti sem ég var að fæðast, fyrir um 50 árum síðan, var skrifuð fræðigrein sem síðan hefur verið mikið nýtt varðandi íbúaþátttöku eða íbúalýðræði og gekk út á það hvernig við virkjum fleiri en bara þá sem sitja á Alþingi í að koma með svör við hlutum. Eitt af því sem var bent á voru þessar mismunandi leiðir. Svo búum við til hér á Alþingi fyrir einhverjum árum síðan þetta svokallaða umsagnarferli þar sem við fáum fólk eða stofnanir og aðra til að skrifa umsögn. Þau leggja mikla vinnu í hana, senda hana inn, koma svo og kynna umsögnina, svara spurningum o.s.frv. Svo kemur í ljós að fólk er bara að gefa umsögn um eitthvað allt annað en raunveruleikinn verður. Þetta var skilgreint í þessum fræðum sem svokallaðar málamyndaaðgerðir og jafnvel hægt að flokka frekar niður í það sem var kallað friðun. Það er verið að friðþægja fólk, nú er búið að gefa því séns. (Forseti hringir.) Mín spurning til hv. þingmanns: Eigum við ekki bara að hætta þessari vitleysu? Það er hvort eð er ekkert horft á þetta, ekkert tillit tekið til þess. (Forseti hringir.) Þurfum við ekki bara að viðurkenna að við erum ekkert að hlusta á lýðræðið?

(Forseti (ÁLÞ): Þingmenn eru minntir á að tímamörkin eru tvær mínútur.)