Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[23:48]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Þetta er mikilvægt. Það skiptir máli að þetta sé skoðað. Ríkissjóður fær ekki neitt rosalega mikið af peningum í gegnum þetta, kannski 700–800 milljónir, held ég að það sé. Isavia heldur því fram í umsögn að þetta muni hafa þau áhrif að salan muni bara leggjast af og flytjast til annarra flugvalla og samkvæmt excel-skjali sem ég hef séð hækka álögur um allt frá 18% á bjór upp í 60–70% þannig að vodkaflaska getur hækkað um 3.000 kr. Hvort kaupir þú vodkaflösku í Noregi á 3.000 kall eða vodkaflösku á Íslandi fyrir 6.000 kr.? Þú fyllir bara töskuna þína áður en þú leggur af stað og setur þetta svo í handfarangur og ert með þetta í flugvélinni á leiðinni til Íslands. Fyrir utan það að ég hef líka samúð með þeim aðilum sem eru að búa sér til atvinnu. Ég vil kalla þetta nýsköpun. Þetta eru framleiðendur á áfengum drykkjum sem hafa verið að hasla sér völl og standa sig vel. Útlendingar hafa verið hrifnir af þessu, þeir kaupa áfengi sem framleitt er á Íslandi í Fríhöfninni, bæði til að koma með hingað inn í landið og til að fara með heim. Það skiptir máli að við verjum þessa atvinnustarfsemi sem stendur á brauðfótum, hún er ný af nálinni, hún þarf stuðning. Ef við ætlum að fara að loka fyrir þetta er næsta víst að stór hluti þessara aðila hættir, þeir gefast bara upp. Ef stærsti hluti þeirra framleiðslu er seldur í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða í gegnum Fríhöfnina þá liggur það bara alveg á borðinu að þeir eiga engan séns. Þess vegna ætlar minni hlutinn, veit ég með vissu, að sameinast um breytingartillögu til að reyna að koma í veg fyrir þennan óskapnað.