Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[23:51]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst ekki fara þinginu vel að ræða fjárlögin langt inn í nóttina. Það er nóg eftir af starfsáætlun til að klára þessi fjárlög. Við þurfum ekki að vinna hér frameftir nótt eftir nótt í einhverju — mér finnst þetta svona, ég verð að viðurkenna það, virðulegur forseti, mjög karllæg nálgun á þennan vinnustað að vera með þessa kvöldfundi alltaf hreint. Eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom inn á áðan hafa tveir þingmenn tekið sig af mælendaskrá sem ekki hafa flutt ræðu um fjárlögin, væntanlega af því að fólk er einmitt ekki tilbúið til að leggja hvað sem er á sig til þess að geta haldið ræðu. En mér finnst heldur ekki að fólk þurfi að fórna nætursvefninum til að geta tekið þátt í umræðu um fjárlög ríkisins.

Ég vil líka halda því til haga, virðulegi forseti, að þetta frumvarp hefði getað komið inn í þennan sal miklu fyrr. Það er ekki við þingmenn stjórnarandstöðunnar að sakast að það hafi ekki gerst. (Forseti hringir.) Ég legg til að forseti fresti fundi núna, það er komið miðnætti, og að við höldum áfram í björtu, eða svona íslensku björtu.