Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[23:59]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er nákvæmlega þetta sem gerist þegar fólk er hérna fram á nótt. Það er eðlilegt að þegar maður er þreyttur þá hverfi manni orð úr minni og annað. Mig langar bara að segja að ég hef frá því ég byrjaði á þingi spurt mig hvers vegna það er ekki hreinlega regla að þingfundur megi ekki vera lengur en til miðnættis. Ég sé ekki hvers vegna þetta fyrirkomulag er svona. Jú, jú, okkur er engin vorkunn að því að þurfa að sinna þessu hlutverki en það er líka ákveðin vanvirðing við þá mikilvægu umræðu sem fer fram hérna að ætlast til þess að fólk eigi hana fram eftir nóttu. Mér þykir þetta í rauninni líka kannski svolítið almenn spurning: Er það eðlilegt að við vinnum með þessum hætti, að við eigum umræður um mikilvæg mál eins og sjálf fjárlögin langt fram eftir nóttu? Hér er fólk sem á eftir að taka til máls í fyrsta skipti, halda sína fyrstu ræðu.