Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[00:05]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Það skiptir ekki bara máli hver stjórnar heldur líka hvernig er stjórnað. Það hvernig verðbólga og vaxtastig í landinu þróast hefur bara heilmikið að gera með þær ákvarðanir sem eru teknar í þessum sal. Í ræðu minni í gærkvöldi vakti ég athygli á atburðarás og tímalínu sem er kannski ekki til vitnis um að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi skilji og axli þessa ábyrgð þegar kemur að hagstjórn í landinu. Nú er staðan þannig að meginvextir Seðlabanka Íslands hafa hækkað um 3,75% í ár og eru núna 5% hærri en þeir voru þegar kórónuveiran var í algleymingi. Vextir eru miklu hærri en gengur og gerist í nágrannalöndunum okkar og heimili landsins fara ekki varhluta af þessu herta aðhaldsstigi peningamálastefnunnar. Hvað þýðir þetta fyrir heimili? Jú, greiðslubyrði íbúðalána hjá nýjum lántakendunum hefur aukist að meðaltali um 13.000–14.000 kr. á mánuði frá ársbyrjun 2020 þannig að þetta eru rúmlega 160.000 kr. á hverju ári. Staðan er auðvitað þyngst hjá heimilum sem skriðu gegnum greiðslumat þegar vextir voru allra lægstir í miðri kórónuveiru, hjá þeim sem tóku óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum og hafa svo horft upp á greiðslubyrðina rjúka upp úr öllu valdi sem bætist þá ofan á almennar verðlagshækkanir. Við erum að tala um alveg gríðarlegar kostnaðarhækkanir hjá venjulegu fólki.

Ég hef lagt á það áherslu hérna í haust, síðan í vor, að við svona kringumstæður er hlutverk ríkisfjármálanna fyrst og fremst tvíþætt. Í fyrsta lagi þarf að taka utan um fólkið sem verður fyrir þyngsta högginu vegna verðbólgu og vaxtahækkana. Í öðru lagi þarf að kæla hagkerfið og ná fram aðhaldi til að berja niður verðbólguna og sporna gegn þenslu, koma í veg fyrir frekari vaxtahækkanir o.s.frv. Hvað sjáum við í þessu fjárlagafrumvarpi? Jú, við sjáum að stuðningur við barnafólk og stuðningur við skuldsett heimili rýrnar að raunvirði. Barnabætur rýrna að raunvirði og vaxtabótakerfið heldur áfram að drabbast niður þannig að heimilin sem ég nefndi hérna áðan, sem eru að lenda í stóraukinni greiðslubyrði vegna vaxtahækkana, standa eftir alveg varnarlaus, algerlega óvarin. Áður hefði vaxtabótakerfið gripið þetta fólk en ekki lengur, sérstaklega af því að viðmiðunarmörkin í vaxtabótakerfinu, eignaskerðingarmörkin, hafa ekki fylgt verðlagi og ekki fylgt hækkun fasteignaverðs og reyndar ekkert hreyfst síðan 2018, þannig að jafnvel þau heimili sem eru að verða fyrir mjög íþyngjandi hækkun á sinni greiðslubyrði vegna hækkandi vaxta fá kannski bara engar eða nánast engar vaxtabætur. Þannig að ríkisstjórnin bregst að þessu leyti, stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi er sem sagt að bregðast þegar kemur að því að verja fólk fyrir verðbólgunni. Þess vegna höfum við í Samfylkingunni lagt fram breytingartillögur við fjárlögin sem fela í sér lágmarksaðgerðir til að leiðrétta þetta og þess vegna erum við t.d. í minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar að leggja til algerar lágmarksaðgerðir til að taka betur utan um þessi heimili.

Ríkisstjórnin bregst þegar kemur að því að verja fólk fyrir verðbólgunni og hærri vöxtum en hvernig gengur nú að taka á verðbólgunni og beita ríkisfjármálunum til þess? Förum aðeins yfir það. Þegar þetta fjárlagafrumvarp var lagt fram í haust var staðan í hagkerfinu þannig að það var gríðarleg þensla víðast hvar, atvinnustig mjög hátt, blússandi hagvöxtur, efnahagsumsvif almennt bara mjög mikil. Engu að síður er gert ráð fyrir 89 milljarða hallarekstri á næsta ári. Hvað hefur svo gerst síðan frumvarpið var lagt fram? Jú, verðbólguhorfur hafa versnað. Nú er spáin fyrir 2023 dekkri heldur en var áður, gert ráð fyrir meiri verðbólgu. Hvað hefur Seðlabankinn gert? Hann hækkar vexti auðvitað enn frekar, sem hefur reyndar komið mörgum á óvart. Hann hækkaði vexti í lok nóvember um 25 punkta og Seðlabankinn benti náttúrlega fjárlaganefnd sérstaklega á það í umsögn fyrr í haust að það væri bara mjög mikilvægt að gæta að aðhaldi til að það kæmi ekki til frekari vaxtahækkana.

Hvað gerir svo fjárlaganefnd þegar staðan er orðin svona, þegar verðbólguhorfur hafa versnað og vextir hafa haldið áfram að hækka? Hvað gerir þá meiri hluti fjárlaganefndar? Jú, þá náttúrlega er horft til þess að fjárlögin voru ekki tilbúin, þau voru algjörlega ófullbúin þegar þau komu hingað inn í þingið. Þetta var einhvers konar bráðabirgðaplagg. Plaggið þá gerði ráð fyrir svo svakalegum, bara grimmilegum niðurskurði til mjög mikilvægrar grunnþjónustu, almannaþjónustu og til mikilvægra stofnana í samfélaginu. Plaggið gerði ráð fyrir svo miklu aðhaldi, svo óverjandi og óréttlætanlegu aðhaldi þegar kemur að t.d. heilbrigðismálum og löggæslumálum, að ríkisstjórnin sjálf leggur til ákveðna útgjaldaaukningu þar og meiri hluti fjárlaganefndar gerir þær tillögur að sínum. Ég nefndi það hérna í fyrri ræðu minni að mér finnst svolítið eins og forræðið á fjárlagavinnunni sé smám saman að færast alveg til framkvæmdarvaldsins og til ríkisstjórnarinnar þegar það á að vera hérna hjá þinginu, sem er mjög alvarlegt en ég ætla ekki að fara út í þá sálma hér, gerði það í minni fyrri ræðu. Fjárlaganefnd og ríkisstjórnin geta ekki annað en bætt við útgjöldum, þó það nú væri. Það styður maður að sjálfsögðu. En svo er hins vegar engin pólitísk samstaða við ríkisstjórnarborðið á milli þessara flokka um það hvernig eigi að afla tekna og hvernig eigi að leiðrétta þetta gríðarlega misræmi milli tekna og gjalda sem hefur orðið til hérna og var í rauninni komið til sögunnar fyrir Covid og fjármálaráð hefur margbent á.

Við erum með flokka í ríkisstjórn, Framsókn og Vinstri græn, sem tala á tyllidögum um hvalrekaskatta og grasrótin í þessum flokkum er að álykta um það á miðstjórnarfundum og ég veit ekki hvað. Þetta eru orðin tóm af því að þessir flokkar hafa í reynd beygt sig undir neitunarvald Sjálfstæðisflokksins í þessum málum sem og allt of mörgum öðrum, þannig að það er ekki ráðist í neina svona tekjuöflun. Meiri hlutinn leggur þannig til breytingar sem fela í sér verulega útgjaldaaukningu, nauðsynlega útgjaldaaukningu, en án þess þó að grípa til neinnar alvöru tekjuöflunar til að vega á móti þensluáhrifunum af þessum auknu útgjöldum. Þannig að hallareksturinn er keyrður úr 89 milljörðum á næsta ári upp í 118 milljarða og þannig er slakað á aðhaldsstiginu miðað við það sem áður var gert ráð fyrir. Þetta er gert þrátt fyrir að efnahagsaðstæðurnar kalli einmitt á hið gagnstæða, nú þegar vextir eru hærri og verðbólguhorfur eru verri þannig að þetta er algjörlega snælduvitlaus hagstjórn hérna. Það er eins og stjórnarmeirihlutinn sé bara að grátbiðja um að verðbólga sé meiri og vextir séu hærri eða séu lengur hærri. Þetta virkar svolítið þannig á mann, eins og það sé bara sú stjórnarstefna sem hér er verið að reka, eins og það sé bara ákall um það hérna frá Alþingi: Já, höfum vextina háa, já, áfram, meiri verðbólgu. Ég veit ekki alveg hvað fólki gengur til hér í þessu húsi. Ég bara veit ekki.

Ég fór hérna í gær yfir aðhaldsráðstafanir á tekjuhlið ríkisfjármálanna, ákveðnar aðgerðir sem við í Samfylkingunni teljum skynsamlegt að ráðast í, og ég held að fleiri flokkar í minni hluta deili þeirri skoðun með okkur, aðgerðir sem snúast um að setja aðhaldið þangað sem er sanngjarnt að setja það, á þá geira og þá hópa sem geta svo sannarlega borið aðeins þyngri byrðar. Ég fór yfir þetta í gær. Við erum að tala um t.d. bara mjög hóflega hækkun fjármagnstekjuskatts sem leggst nær alfarið á tekjuhæstu 10% skattgreiðenda. Við erum að tala um stærðarálag á stóru útgerðarfyrirtækin. Við erum að tala um að afturkalla þótt ekki væri nema hluta þessarar miklu lækkunar bankaskatts sem var ráðist í árið 2020 og virðist alls ekki hafa skilað sér nægilega til neytenda. Við erum að tala um að girða fyrir ákveðnar glufur í skattkerfinu og fleira.

Mig langar í þessari seinni ræðu minni að víkja að atriðum sem hafa að gera með aðhald á útgjaldahlið ríkisfjármálanna. Þar er auðvitað af ýmsu að taka. En það sem mig langar kannski að víkja hér að er sú staðreynd að í lögum um opinber fjármál eru settar ákveðnar skyldur á stjórnvöld, skyldur á stofnanir og ríkisaðila um að þar fari fram mjög stíft eftirlit með því hvernig er farið með takmarkaða fjármuni, að það fari fram innri endurskoðun hjá ríkisaðilum. Þetta eru mjög skýr lagafyrirmæli í lögum um opinber fjármál, mig minnir að þetta sé í 67. gr. Og hver er tilgangurinn með þessu? Hvers vegna var þetta ákvæði sett þarna inn árið 2015 þegar lögin voru samþykkt hérna á Alþingi? Ef við skoðum greinargerð með frumvarpinu kemur fram að tilgangurinn með innri endurskoðun hjá öllum ríkisaðilum sé að stuðla að bættum rekstri ríkisaðila og auka líkur á því að markmiðum þeirra verði náð. Tilvitnun hefst, með leyfi forseta:

„Með framkvæmd innri endurskoðunar er lagður grunnur að virku eftirliti með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár, eigna og réttinda, og því að tryggja að opinber fjárstjórn og starfsemi sé skilvirk og hagkvæm, sbr. 3. og 5. tölul. 1. gr. Með innri endurskoðun er leitast við að draga úr hættu á að rangar eða ófullnægjandi upplýsingar séu lagðar til grundvallar við töku rekstrartengdra ákvarðana. Þá er markmið innri endurskoðunar að meta virkni innra eftirlits til að draga úr eða koma í veg fyrir að óhagkvæmni eða óskilvirkni viðgangist athugasemdalaust í starfsemi ríkisaðila eða fjársvik eigi sér stað.“

Þetta er bara mjög mikilvægt lagaákvæði í þessum grundvallarlagabálki um umgjörð ríkisfjármálanna. Þetta snýst sem sagt um að tryggja að það sé farið vel með opinbert fé alls staðar í ríkiskerfinu í samræmi við alþjóðleg viðmið, alþjóðlega mælikvarða um góðan ríkisrekstur. Hvernig hefur framkvæmdin á þessu ákvæði verið á undanförnum árum? Ég skal segja ykkur það: Þessu ákvæði er einfaldlega ekki fylgt. Þetta er bara dauður lagabókstafur. Þessu hefur aldrei verið fylgt síðan lög um opinber fjármál voru sett árið 2015 og það hefur bara verið eiginlega einn maður í fjármálaráðuneytinu síðan. Ákvæðið hangir á því að fjármálaráðherra setji reglugerð um það hvernig innri endurskoðun skuli háttað. Það er mælt fyrir um þetta í lögum um opinber fjármál, að fjármálaráðherra setji slíka reglugerð og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, hefur einfaldlega ekki hirt um að setja svona reglugerð. Á þetta hefðu verið margbent ár eftir ár. Hann hefur verið fjármála- og efnahagsráðherra nær óslitið frá árinu 2013, ráðið lögum og lofum þegar kemur að ríkisfjármálum og rekstri ríkisins en bara algjörlega hunsað þessi lagafyrirmæli, látið eins og þetta ákvæði sé ekki til. Þess vegna fer ekki fram innri endurskoðun hjá stofnunum ríkisins alla jafna. Þess vegna fer ekki fram neitt svona kerfisbundið eftirlit hjá ríkisaðilum út frá alþjóðlegum stöðlum og viðmiðum um það hvernig sé hægt að tryggja að fjármunir nýtist sem allra best og það er bara pólitísk ákvörðun. Þetta er pólitísk ákvörðun um að láta sér lynda óskilvirkni í rekstri ríkisstofnana. Hugsið ykkur, ekki einu sinni Landspítalinn, stærsti vinnustaður landsins, með 6.000 starfsmenn í vinnu, þar sem sko — slagar ekki kostnaður við rekstur Landspítalans upp í hátt í 100 milljarða eða eitthvað svoleiðis? (Gripið fram í.) Ekki einu sinni Landspítalinn er með innri endurskoðun af því að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, og þeir flokkar sem styðja hann í það embætti, til að gegna því, bara hirðir ekki um að hlíta lagafyrirmælum um opinber fjármál. Það er svo fyndið að þetta er sami stjórnmálaforinginn, sama stjórnmálaaflið, og er alltaf að gefa sig út fyrir að sýna voðalega ráðdeild í ríkisrekstri. Þegar við í minni hlutanum gagnrýnum ríkisstjórnina fyrir að fjársvelta mikilvæga þjónustu o.s.frv. þá er alltaf sagt: Ah, þessir vinstri menn, þeir vilja bara eyða meiri peningum og hækka skatta. En svo eru þetta stjórnarhættirnir sem við horfum upp á. Svo er þetta er meðferðin á opinberu fé.

Nú spurði ég hæstv. ráðherra um einmitt þetta sem ég var að fara yfir, ég lagði fram skriflega fyrirspurn til hans þann 13. október síðastliðinn. Mig minnir nú að þingskapalög mæli fyrir um að ráðherra eigi að svara innan 15 daga, er það ekki? (Gripið fram í: Virkra daga.) Já, innan 15 virkra daga, þannig að hér er ekki verið að fylgja ákvæðum þingskapalaga og engin tilkynning borist um það heldur að þetta svar sé í vinnslu og beðist velvirðingar á því eða neitt svoleiðis eins og gerist nú stundum. Það bólar ekkert á svari við þessari fyrirspurn minni. Spurningarnar eru þessar, og það verður fróðlegt að heyra svörin við þeim ef þau berast einhvern tímann einn góðan veðurdag:

„1. Hvers vegna hefur ráðherra enn ekki sett reglugerð um innri endurskoðun ríkisaðila, sbr. 2. mgr. 65. gr. og 3. mgr. 67. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, nú þegar sjö ár eru liðin frá gildistöku laganna?

2. Hjá hvaða ríkisaðilum hefur innri endurskoðun verið framkvæmd skv. 2. mgr. 65. gr. laga um opinber fjármál á tímabilinu 2016–2022?“

Ég er ekki viss um að það hafi verið framkvæmd svona innri endurskoðun hjá neinni ríkisstofnun. Það er svona innri endurskoðun hjá Reykjavíkurborg t.d.

„3. Hefur ráðherra beitt sér fyrir því að innri endurskoðun sé framkvæmd hjá fleiri ríkisaðilum í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál?

4. Í ljósi þess að ráðherra segist hafa séð „blóðuga sóun úti um allt í opinbera kerfinu“ (sjá viðtal í Silfrinu 4. október 2020),“ — Þetta sagði hann í viðtali í Silfrinu fyrir einu og hálfu ári eða svo, hugsið ykkur, þetta er ráðherrann sem hefur farið með æðstu stjórn ríkisrekstrar í hátt í tíu ár. — „telur ráðherra ekki ástæðu til að setja téða reglugerð sem fyrst og tryggja að innri endurskoðun sé framkvæmd hjá ríkisaðilum til að stuðla að aukinni hagkvæmni í ríkisrekstri?“

Ekkert svar, en alltaf þetta babl og blaður um ábyrgð og ráðdeild í ríkisrekstri. Ég held að almenningur sjái í gegnum þetta, að fólk viti bara betur. Ég held að það sjái allir að fjárlög næsta árs og þessi atburðarás þar sem hallarekstur ríkisins er að aukast um tugi milljarða á milli umræðna um málið hér á Alþingi, þrátt fyrir að verðbólguhorfur versni og vextir hækki — ég held að það sjái allir að þetta er ekki ábyrg stjórn ríkisfjármála. Ég er alveg sannfærður um það. Ég held líka að fjölskyldur í landinu séu bara farnar að finna það bíta mjög rækilega í budduna hvernig þessi ríkisstjórn bregst þegar kemur að því að sporna gegn verðbólgu. Annars vegar að sporna gegn verðbólgu eins og ég fór yfir og hins vegar að verja fólk fyrir verðbólgu og það verður auðvitað best gert í gegnum tekjutilfærslukerfin okkar.

Við í Samfylkingunni leggjum til afmarkaðar breytingar við þessi fjárlög sem snúast um þetta, að verja heimilisbókhaldið hjá almenningi og hins vegar að auka aðhaldið í ríkisfjármálum, sporna þannig gegn þenslu. Það er ábyrg stefna og það er bara skylda okkar í mínum huga. Við getum ekki búið við það að það sé gengið svona um ríkissjóð eins og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur gerst. Þetta er bara skaðlegt og þessu ástandi sem ég hef lýst hérna verður að linna. Við þurfum að efla grunnkerfin okkar, efla stuðningskerfin okkar og við þurfum að hafa kjark til að afla tekna til að standa undir því og gera það með ábyrgum hætti þannig að það raski ekki efnahagslegum stöðugleika. Við þurfum að sækja tekjurnar þangað sem þær er raunverulega að finna og þar sem ofurgróðann og auðlegðina og methagnaðinn er að finna. Við þurfum að forgangsraða í þágu alls almennings, í þágu fjöldans en ekki hinna fáu.