Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[00:27]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vera staðfastari þegar kemur að útgjöldum ríkisins. Ég held að það sé alveg rétt og við verðum bara að sætta okkur við að það kostar mjög mikið að viðhalda góðri þjónustu og tryggja t.d. félagsleg réttindi. Við vorum að ræða hérna NPA-samninga í fyrradag, það er bara mjög mikilvæg þjónusta og kostar mjög mikið að veita hana. Við eigum ekkert alltaf að blygðast okkar fyrir það á Alþingi. Það sem skiptir máli til að sú útgjaldaaukning sem nauðsynleg er komi ekki fram í einhverri þenslu og raski stöðugleika í efnahagslífinu, er að við séum tilbúin til að sækja fjármuni og sporna gegn þenslu þar sem þenslan er. Þetta gríðarlega misvægi milli tekna og gjalda, sem við sjáum í þessu frumvarpi, er ekki til marks um að ríkisstjórnin standi sig í stykkinu þar.