Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[00:35]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er athyglisverð spurning. Fjárlögin virðist ekki stefna að því markmiði að sporna gegn verðbólgu. Þau virðast heldur ekki stefna að því markmiði að verja sérstaklega þá hópa sem verða hvað harðast fyrir barðinu á verðbólgunni eða vaxtahækkunum eftir atvikum. Svo eru jafnréttisáhrifin óljós og um leið er verið að leggja til breytingar á skattlagningu ökutækja sem hefur verið varað við að muni beinlínis grafa undan orkuskiptum í vegasamgöngum, þannig að ekki virðast loftslagssjónarmið og loftslagsmarkmið heldur vera ofarlega á baugi í þessari fjárlagagerð. Ég stend því hreinlega á gati. Ég held að þetta sé bara einhvers konar flokkspólitískt skítamix, að það sé verið að víla og díla um ákveðin atriði og niðurstaðan sé þessi bastarður hérna sem er hvorki til þess fallinn að vinna gegn verðbólgu né verja fólk fyrir henni. Þar er heldur ekki verið að standa vörð um grunnþjónustuna eða efla hana og styrkja eins og þarf svo sannarlega að gera.