Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[00:55]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Já, ég kem hérna í annað sinn, eiginlega bara vegna þess, og það er grátlegt að ég sé að segja þetta, að ég er að biðja forseta Alþingis um að virða okkur viðlits og svara þeim spurningum sem að honum er beint af hv. þingmönnum. Þetta er ekki stór bón, bara alls ekki. Þetta ætti ekki að vera neitt sérlega flókið. Ég hef setið hér í sex ár og það kemur fyrir að við lendum í svona fýlustjórnun hjá forseta, hann svarar ekki spurningum þingmanna, lætur eins og þær hafi bara ekki komið fram. Þetta er ákveðin taktík og hefur mikið verið skrifað um hana, um annars konar samskipti milli fólks. En það er auðvitað ekki boðlegt í þingsal sem er allra þingmanna, gagnvart forseta sem á að heita forseti allra þingmanna, að hann virði bara suma þeirra viðlits en ekki aðra.