Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[00:57]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Kórónuveirukreppan bitnaði verst á tekjulægri hópunum í íslensku samfélagi, langverst — ég fer aðeins nánar yfir það á eftir — og hún kom sér best fyrir tekjuhærri hópa samfélagsins. Það var ekki bara náttúruleg afleiðing af kórónóveirukreppunni, það var ekki eitthvert náttúrulegt fyrirbrigði eins og vírusinn heldur var það afleiðing af hagstjórn ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Verðbólgan sem við erum að upplifa núna, þessi gríðarlega hækkun á öllum helstu nauðsynjavörum, á húsnæðisverði og öllu bitnar verst á tekjulægri hópum í íslensku samfélagi og er best fyrir tekjuhærri hópana. Þær krónutöluhækkanir sem verið er að leggja til í bandorminum sem fylgir frumvarpinu sem við ræðum hér, fjárlagafrumvarpinu, bitna verst á tekjulægstu hópunum og eru minnst skaðlegar fyrir tekjuhærri hópana.

Virðulegi forseti. Þökk sé ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafa fjármagnseigendur aldrei haft það betra. Gróði af hlutabréfabraski hefur aldrei verið meiri en í fyrra, 70 milljarðar, og þó var hann ansi mikill í hittiðfyrra þegar heimsfaraldurinn stóð sem hæst. Fyrirtæki landsins greiddu út 63,7 milljarða í arð, þökk sé ríkulegum stuðningi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á meðan efnahagsþrengingar stóðu yfir. Þetta voru peningar sem runnu beint úr vasa skattgreiðenda í vasa fjármagnseigenda. Þökk sé hagstjórnarmistökum ríkisstjórnarinnar hefur stjarnfræðileg hækkun húsnæðisverðs gert það að verkum að sífellt stærri hópur á í erfiðleikum og mun eiga í erfiðleikum með að ná endum saman og sífellt minni hópur hefur ráð á að kaupa sína fyrstu íbúð. Verðbólga hefur ekki verið hærri síðan 2010 og leiguverð er alltaf á uppleið. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar í vor voru að greiða út 20.000 kr. einskiptisbarnabótaauka og hækka örorku- og húsaleigubætur lítillega. Þetta voru bitlingarnir sem hæstv. forsætisráðherra dró fram þegar hún var spurð um það óréttlæti að hækka krónutölugjöldin um 7,7% þvert yfir línuna, af hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur í óundirbúnum fyrirspurnatíma um daginn, það var þessi 20.000 kr. eingreiðsla. Svo megum við ekki gleyma rúsínunni í pylsuendanum, að fólk sem átti meira en nóg af peningum fyrir kórónuveirukreppu græddi fullt af peningum í kreppunni. Ríkasta eina prósenti landsmanna tókst t.d. að sópa til sín 45% af öllum fjármagnstekjum árið 2019 sem voru 58 milljarðar á einu ári. Það var ekki mikill skattur sem þurfti að greiða af þeim gróða.

Eins og ég vísaði til í ræðu minni áðan var ekki gerð ítarleg greining á jafnréttisáhrifum bandormsins. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram, með leyfi forseta

„Þó má leiða að því líkur að einhverjar tillögur þess geti haft ólík áhrif á karla og konur enda eru konur að meðaltali með lægri tekjur en karlar. Samkvæmt álagningarskrá ársins 2021 voru 56% kvenna í neðri helmingi tekjudreifingarinnar og konur eru aðeins 29% einstaklinga í efstu tekjutíundinni. Hækkun krónutöluskatta og annarra skatta og gjalda kemur því að meðaltali hlutfallslega verr niður á konum en körlum.“

Þessi hækkun sem við vitum að mun hækka vísitölu neysluverðs, það er meira segja viðurkennt, kemur verr niður á konum en körlum, þökk sé femínískri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Það mætti halda að þessi ríkisstjórn hefði það að markmiði sínu að gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari. Ég hlýt auðvitað að spyrja hvers vegna. Ég held ekki að hæstv. ríkisstjórn sé uppfull af fólki eins og í fjölskyldunni hans Láka jarðálfs sem vaknaði á hverjum morgni og sagði: Við ætlum bara að gera það sem er ljótt. Það er ekki svoleiðis, virðulegi forseti. Ég held að stór skýring á þessari skrýtnu forgangsröðun, þessari ósanngjörnu og óréttlátu forgangsröðun, sé að þessi ríkisstjórn sé í heljargreipum thatcherisma og brauðmolakenningar Sjálfstæðisflokksins sem heldur enn fast í þá bjargföstu trú að þeir ríku þurfi bara að verða ríkari svo að þeir fátæku geti fengið nokkra brauðmola af veisluborðinu, þrátt fyrir að það sé margbúið að afsanna þá fáránlegu kenningu, þrátt fyrir að hún hafi leitt af sér verstu kjaragliðnun sem sést hefur. Þrátt fyrir að sú stefna sé gríðarlega skaðleg fyrir samfélagið allt þá er haldið í þetta eins og einhverja biblíu. Kannski af því að það er svo auðvelt að nota þetta til þess að réttlæta það að skara eld að eigin köku og auka tekjur þeirra sem hafa það betra á kostnað þeirra sem minni tekjur hafa.

Virðulegi forseti. Rétt um helmingur landsmanna, og rúmlega 80% fatlaðs fólks, neitar sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu vegna þess að þeir hafa ekki efni á henni. Nær 7.000 heimili lifa við skort á efnislegum gæðum og barnafjölskyldum í þeirri stöðu fer fjölgandi. Fjórðungur launafólks á erfitt með að ná endum saman. Meira en þriðjungur innflytjenda á erfitt með að ná endum saman. Meira en helmingur atvinnulausra á erfitt með að ná endum saman og meira en helmingur einstæðra foreldra og átta af hverjum tíu öryrkjum. Þetta sýna rannsóknir frá því í fyrra og skal enginn segja mér að þetta sé ekki verra núna en það var í fyrra þegar vaxtastig var gríðarlega lágt og atvinnuleysi á niðurleið.

Forseti. Það er líka neyðarástand í heilbrigðiskerfinu. Hjúkrunarfræðingar hætta störfum unnvörpum vegna þess að margra ára neyðarópi þeirra, um yfirfullan spítala, viðvarandi óöryggi sjúklinga og ómannlegt álag, hefur verið svarað með fálæti, með stælum og með fullyrðingum um að það vanti bara ekkert peninga í kerfið, það vanti bara einhverja lyftara í kerfið. Þá rifjast auðvitað upp fyrir mér að í valdatíð hæstv. forsætisráðherra hafa hjúkrunarfræðingar tvívegis verið sendir í gerðardóm með sínar kröfur um sanngjörn laun og að ljósmæður hafa farið rakleiðis sömu leið. Þetta er þannig þrátt fyrir að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar vilji að stjórnvöld beiti sér gegn ójöfnuði með álagningu skatta á ríkasta fólkið og vilji sterkt opinbert heilbrigðiskerfi, réttlátar breytingar í sjávarútvegi og nýja stjórnarskrá með sanngjörnum og öflugum leikreglum. Það er alveg ótrúlegt hvað hagstjórnin hér í þessu húsi, í valdi hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar, er í hróplegu ósamræmi við gildismat þjóðarinnar, ár eftir ár. Mögulega vegna þess að hugmyndafræðin á bak við hagstjórnina hjá hæstv. fjármálaráðherra er hin títtnefnda brauðmolakenning og thatcherismi. Þar er líka undirliggjandi sú hugmyndafræði að það sé bara náttúrulögmál að það séu einhverjir fátækir taparar í lífinu og það sé ekkert mikið hægt að gera í því. Það þurfi bara að vera nógu mikið frelsi til að athafna sig og grilla á kvöldin og græða á daginn og selja vinum sínum hluti og svona, alls konar hluti, og þá verði þetta bara allt í lagi, þó svo að það séu nokkrir taparar inn á milli, 10% eða 20% og jafnvel fleiri, t.d. 80% þegar kemur að því að fá aðgang að rentu fyrir auðlindirnar sem tilheyra þjóðinni, eða ætli það sé ekki frekar 98% þegar kemur að sjávarútveginum. Það er bara allt í lagi vegna þess að það eru sigurvegarar og svo eru taparar. Það er líka ákveðin hugmyndafræði sem fylgir alltaf þessari efnahagsstefnu og hún er undirliggjandi til að réttlæta það að sumir bara sigra og aðrir tapa. Og þó svo að það sé þannig að þeir sem hafa minni tekjur tapi miklu oftar og miklu meira og þeir sem hafa meiri tekjur vinni miklu oftar og miklu meira hvert árið á fætur öðru þá er það bara allt í lagi af því að það er náttúrulögmál og það eru einhverjir brauðmolar þarna sem hypoþetískt detta niður af veisluborðunum.

Mig langar, með leyfi forseta, að vitna í ágæta grein, mjög nýlegan leiðara frá ritstjóra Kjarnans:

„Kaupmáttaraukning almennings sem féll til á síðustu árum, aðallega vegna uppgangs í ferðaþjónustu og þrátt fyrir stjórnvöld, ekki vegna þeirra, er byrjuð að étast upp (kaupmáttur reglulegs tímakaups er nú svipaður og í byrjun árs 2021) og hratt gengur hjá mörgum á sparnaðinn sem safnaðist upp í aðgerðarleysi kórónuveirunnar. Eftir standa fjölmörg heimili með stóraukna greiðslubyrði húsnæðislána, miklu hærri dagleg útgjöld vegna þess að verðlag á nauðsynjavöru hefur rokið upp og veikingu krónunnar sem hefur rýrt virði þeirra peninga sem launafólk þénar í alþjóðlegum samanburði.

Þetta er staða sem bitnar skarpt á viðkvæmustu hópum samfélagsins, þeim sem hafa lægstu tekjurnar, en er líka farin að bíta millistéttina fast. Viðbrögð seðlabankastjóra við áhyggjum þessa hóps hafa verið þau að ungt fólk verði bara að búa lengur heima hjá foreldrum sínum en þau ætluðu, að venjulegt launafólk verði að hætta að eyða peningum og að sökin á ástandinu liggi hjá þeim sem fara til Tenerife í frí. Hrokinn og skorturinn á jarðtengingu minnir mjög á orðræðuna fyrir hrun þegar almenningi var kennt um ástandið, sem bankamennirnir og lukkuriddararnir á sporbaugnum í kringum þá sköpuðu, vegna þess að hann hafði fjárfest í flatskjám.“

Ég tek undir þessi orð ritstjóra Kjarnans. Ég er vissulega að fá ákveðið „déjà vu“ með þessari orðræðu en mér finnst ég svo sem alltaf vera að sjá það sama endurtaka sig aftur og aftur: Þetta er einhverjum öðrum að kenna en mér, hagstjórnarmistök ríkisstjórnarinnar eru alltaf einhverjum öðrum að kenna, t.d. það að dæla endalausum peningum í eftirspurnarhliðina á húsnæðismarkaði, að setja fólk í þá stöðu að til þess að geta eignast þak yfir höfuðið þá geti það tekið lán hjá sjálfu sér með því að taka út séreignarsparnaðinn sinn. Stjórnvöld eru svo sem alltaf að gera þetta en þetta gerðu þau aftur og aftur í gegnum kórónuveirukreppuna og meira að segja þannig að það hafði gríðarlega misjöfn áhrif á fólk eftir því hvar í tekjustiganum það var. Þannig gat fólk sem átti fasteign notað séreignarlífeyrissparnað sinn til þess að greiða niður húsnæðislán sín og aukið eign í húsnæði sínu en fólk sem var að berjast í bökkum, og gat jafnvel ekki greitt leiguna, gat tekið út ævisparnaðinn sinn, séreignarlífeyrissparnaðinn sinn, og greitt af honum skatt, til að borga fyrir nauðsynjar vegna þess að ekki stóð til að hækka atvinnuleysisbætur eða aðrar bætur að neinu ráði meðan við gengum í gegnum eina af verstu kreppum sem við höfum séð. Nei, það kom ekki til greina. Það kom hins vegar til greina að dæla mörgum milljörðum í fyrirtæki og meira að segja að borga þeim styrki fyrir að segja upp fólki. Svo kom líka til að ríkisstjórnin ákvað að bjóða upp á það, og meira að segja hvetja til þess, að ef fólk tæki ekki hvaða vinnu sem því bauðst, burt séð frá því hversu hræðilega illa hún hentaði því, burt séð frá því að það þyrfti að flytjast á milli landshluta til þess að fara í þá vinnu, þá bara missti það bæturnar. Þessu var hótað og almenningur var hvattur til þess að klaga og atvinnurekendur voru hvattir til þess að klaga vinnandi fólk sem var ekki til í að stökkva upp á ferðaþjónustuvagninn um leið og hann keyrði fram hjá. Þetta var á sama tíma og það er kvótasetning á sjálfsögðum mannréttindum á Íslandi, eins og NPA-þjónustu. Þetta er auðvitað grátlegt, virðulegi forseti.

Ég sé að það er svolítið farið að saxast á tímann hjá mér en mig langaði mikið að tala um löggæslumál. Þau hafa verið í deiglunni og þau standa mér mjög nærri og skipta mig miklu máli. Mér finnst það svolítið kaldhæðnislegt, forseti, en ég tók eftir því, að lögreglan eigi að fá 150 millj. kr. til þess að kaupa sér tækjabúnað, samkvæmt meiri hluta fjárlaganefndar sem ætlar að láta hana fá þessa peninga. Ég tengdi það auðvitað strax við skýrsluna sem vakin var athygli á í dag að hefði komið út frá ríkissaksóknara. Hún fjallar einmitt að stóru leyti um tækjabúnað lögreglu og þess vegna ætla ég að gera þetta að umtalsefni. Árið 2016 eða 2017, alla vega voru sett lög 2016, og þeim átti að fylgja peningur til lögreglu, örugglega svipað og núna, 150 millj. kr., til þess að lögreglan gæti keypt sér tækjabúnað til þess að ríkissaksóknari gæti fylgst með hlerunar- og eftirfylgnisaðferðum lögreglu. Þetta átti að gerast í kringum 2016 eða 2017. Síðan þá hefur ríkissaksóknari endurtekið gefið út opinberar skýrslur þar sem hún lýsir því yfir að lögreglan hafi ekki fjárfest í þessum búnaði og ríkissaksóknari geti þar af leiðandi ekki haft eftirlit með hlerunaraðgerðum lögreglunnar, vegna þess að það sé ekki réttur búnaður í notkun. Ég verð að útskýra þetta, forseti. Ég reyndi að útskýra þetta í Reykjavík síðdegis um daginn, það var í september þegar dómsmálaráðherra var fyrst að sækja mjög hart fram með frumvarp sitt um afbrotavarnir lögreglu. Þar var ég í viðtalsþætti með hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni og ég var að útskýra hvernig það væri algerlega fjarstæðukennt að ætla að færa lögreglunni auknar eftirlits- og valdheimildir þegar hún sætti ekki einu sinni því litla eftirliti sem á að vera haft með henni samkvæmt lögum. Hún bara hlýðir ekki, lögreglan hlýðir ekki lögum. Svolítið kaldhæðnislegt. Hún svarar ekki einu sinni ríkissaksóknara þegar hún biður hana um að svara. Það er bara „ignore“ — afsakið slettuna, forseti. (Gripið fram í: Hunsa.) Hunsa, það bara hljómar ekki jafn vel, hv. þingmaður, en það er rétt, ætli þýðingin á ignore sé ekki að hunsa.

Það er sem sagt þannig að búnaðurinn sem lögreglan notaðist við, þar til fyrir stuttu, til þess að geyma upptökur af hlerunum og væntanlega til þess að keyra þær í gegn meðan þær eru í gangi, er í frístandandi tölvum einhvers staðar. Það sem skiptir máli er að lögreglan fær heimild frá dómstólum til þess að hlera síma fólks, fylgjast með samtölum fólks við sína nánustu, sem oft eru mjög viðkvæm, við ýmsa aðila, skulum við segja, um margt og mikið og fer jafnvel í enn harðari eftirlitsaðgerðir eins og að fara inn á heimili fólks — þetta er gert, virðulegi forseti — og setja upp myndavélar án þess að viðkomandi viti af því til þess að fylgjast með honum. Þetta eru eftirlitsaðgerðir sem lögreglan getur gripið til með dómsúrskurði. Það þarf að vera hægt að fylgjast með því að farið sé rétt með upptökur af þessum hlerunum, sem eru skref inn í innstu vígi fólks, þetta snýst um friðhelgi einkalífsins, ástæðan fyrir því að við skrifuðum friðhelgi einkalífsins var sú að koma í veg fyrir að löggan væri að hlusta á það sem við værum að segja í símanum, stóri bróðir og allt það. Það er ástæðan. Það verður að fylgjast með því að farið sé rétt með þessi gögn. Að vandræðalegum símtölum sé t.d. ekki deilt á milli fólks sem hefur aðgang að þeim bara svona til skemmtunar eða að þetta fari á flakk eða að einhver sem má alls ekki heyra þetta heyri þetta o.s.frv. Og bara yfir höfuð þá á það að vera þannig að ef lögreglan fær heimild til að hlera einhvern þá er einhver ákveðinn aðili sem hefur heimild til að hlusta á þetta, það á að nota þetta í þágu ákveðinnar rannsóknar og síðan, þegar búið er að nota þetta, á að eyða því. Ríkissaksóknara er falið samkvæmt lögum að fylgjast með því að þannig sé það; að einungis þeir sem hafa með lögum heimild til þess að hlusta á þetta gríðarlega rof á einkalífi fólks hlusti á þetta og þegar búið sé að nota þetta þá verði því eytt og að innan tilskilins frests, sem er ákveðinn með lögum, sé viðkomandi aðila tilkynnt um að hann hafi verið undir eftirliti. Þetta er í lögunum, þetta er allt saman í lögunum. Og ríkissaksóknari á að fylgja því eftir að þetta sé gert svona. Til þess að ríkissaksóknari geti fylgt þessu eftir þá þarf auðvitað að vera eitthvert kerfi utan um það þar sem það er skráð hverjir höfðu aðgang að þessum gögnum, hvenær þessum gögnum var eytt, hvort gerð hafi verið afrit af þessum gögnum, hvert þau afrit fóru, hvenær þeim afritum var eytt, hvenær viðkomandi var tilkynnt um þetta.

Eins og tækjabúnaðurinn er getur ríkisendurskoðandi — afsakið, ég er búin að vera að díla svolítið mikið við ríkisendurskoðanda. Eins og tækjabúnaðurinn er getur ríkissaksóknari ekki haft eftirlit með því hvernig að þessu er staðið. Hann kemst samt að þeirri niðurstöðu í mjög ítarlegri skýrslu, miklu ítarlegri skýrslu en þeim kvörtunarbréfum sem hafa komið 2018, 2019, 2020 — það er bara mjög ítarleg skýrsla sem kemur út núna, virðulegi forseti. Meðferð lögreglu á þessum ótrúlega viðkvæmu trúnaðargögnum, sem gríðarlega stór og sterkur lagarammi er utan um, að það megi alls ekki fara með öðruvísi en að fylgst sé með því hverjir hafa aðgang að þeim, að gögnunum sé eytt innan tilskilins frests og að viðkomandi sé látinn vita innan tilskilins frests — og ríkissaksóknari segir að það séu bara verulegir annmarkar á því að þeim litlu ferlum, sem á að fylgja núna, þó að tækjabúnaðurinn sé ekki í lagi, sé fylgt. Og ríkissaksóknara er ekki einu sinni svarað af lögreglunni.

Mér fannst það áhugavert, ég las það líka út úr skýrslunni og var svo sem meðvituð um það en það er gott að rifja það upp, að ríkissaksóknari fer með eftirlitshlutverk gagnvart lögreglunni í umboði ráðherra. Það sagði svo í skýrslunni. Og ráðherra segir ekki orð við þessu. Þetta er búið að vera í gangi í árafjölda. Hann ætlar að láta lögregluna fá meiri heimildir til þess að hafa meira eftirlit með borgurunum, sömu lögreglu og er ekki einu sinni til í að skrá það, logga það, eins og það er kallað, skrá það niður hjá sér: Ég fékk aðgang að þessari skrá klukkan þetta þennan dag. Ég eyddi þessari skrá klukkan þetta þennan dag. Ég lét viðkomandi vita klukkan þetta þennan dag. Þeir eru ekki til í að vinna þessa pappírsvinnu — af því að þetta þarf að gerast á pappír vegna þess að lögreglan neitar að ná sér í tækjabúnaðinn sem hún þarf til þess að ríkissaksóknari geti bara fylgst með því í rauntíma að verið sé að fylgja lögum sem gilda um eftirlitsheimildir lögreglu. Hún hefur ekki fyrir því að fylla það út á pappír þrátt fyrir að hafa fengið frá dómara traust til þess að ráðast inn í einkalíf fólks. En það er auðvitað skilyrðum háð, virðulegi forseti.

Ég varð að minnast á þetta, virðulegi forseti, vegna þess að ég verð að segja að það fauk í mig þegar ég sá að það ætti að fara að láta lögregluna fá 150 milljónir til kaupa á tækjabúnaði þegar hún er ekki einu sinni búin að koma þessu í lag — og hún fékk pening til þess að koma þessu í lag. Vandamálið sem ríkissaksóknari bendir á er að hún hafi ekki forræði yfir tækjabúnaði lögreglu þannig að hún geti ekki neytt lögregluna til þess að nota tækjabúnaðinn sem þarf til þess að hægt sé að fylgja þessu eftir. Stundum er talað um skipulagt ábyrgðarleysi, en í þessu tilfelli þá er þetta bara óhlýðni af ásetningi. Og þetta er ekki borgaraleg óhlýðni, virðulegi forseti, þetta er óhlýðni lögreglunnar gagnvart þeim lögum og reglum sem settar eru um hennar mjög svo miklu valdheimildir. En gefum þeim aðrar 150 milljónir til þess að kaupa sér einhver tæki og, hvað voru það, 350 eða 400 milljónir til þess að takast á við skipulagða glæpastarfsemi, eitthvað svoleiðis. Ég held að ég fari rétt með. Það er auðvitað sjónarmið út af fyrir sig en ég get ekki sagt að ég sé sammála því sjónarmiði.

Virðulegi forseti. Mér er enn mjög minnisstætt hvernig kórónuveiran fór með þá verst settu í samfélaginu. Ég man að ég gerði það að umtalsefni í kosningaþáttum, einum á fætur öðrum, að kórónuveiran bitnaði verst á þeim sem hefðu það verst. Í þessu sambandi hlýt ég að þurfa að tala um heilbrigðismál. Við vitum það bara, allar rannsóknir hafa sýnt það og ég held að það hljóti að segja sig sjálft, að þegar við setjum fólk eiginlega í félagslega einangrun í tvö ár þá muni það hafa neikvæð áhrif á geðheilsu fólks að ganga í gegnum slíkt. Mér er einmitt minnisstæð, og ég er nú með hana hérna, skýrsla sem ég las frá ASÍ. ASÍ gerði margar mjög góðar skýrslur um áhrif kórónuveirunnar, ja, kannski sérstaklega á þá tekjulægri en líka bara á misrétti — hérna er þetta — og misskiptingu í samfélaginu og misjöfn áhrif kreppu á mismunandi tekjuhópa. Þetta eru mjög ítarlegar og góðar skýrslur og ég mæli virkilega með því að fólk lesi þær, Efnahagsleg áhrif Covid-19, Covid-kreppan og ójöfnuður á Íslandi og Það er nóg til, það er heitið á annarri skýrslu. Í einni af þessum skýrslum kemur fram, með leyfi forseta:

Í óháðri úttekt British Academy á félagslegum afleiðingum faraldursins til lengri tíma litið, sem unnin var að beiðni bresku ríkisstjórnarinnar og birt í marsmánuði 2021, er bent á að nú fari í hönd Covid-áratugur. Hann muni einkennast af viðbrögðum samfélagsins við langtímaáhrifum faraldursins sem m.a. muni birtast í mikilli fjölgun geðsjúkdóma, auknum ójöfnuði og fátækt. Þessu muni fylgja djúpstæðar félagslegar og menningarlegar afleiðingar. Um 200 breskir fræðimenn á sviði félags- og hugvísinda komu að gerð skýrslunnar og niðurstöður hennar byggja á mörghundruð rannsóknarverkefnum. Breska akademían segir að horfist menn ekki í augu við umfang þeirra áskorana sem framundan eru og verði ekki gripið til mótvægisaðgerða muni félagslegri velferð hraka hratt í Bretlandi, ójöfnuður verða enn meiri og eining þjóðarinnar rofna. Inngripa undir forystu ríkisstjórnarinnar sé þörf með fjárfestingu í almannaþjónustu, m.a. á sviði geðheilbrigðis og menntunar, til að bæta þann gríðarlega félagslega skaða sem veirufaraldurinn hafi í senn valdið og aukið.

Það er niðurstaða skýrsluhöfunda hjá ASÍ að þó að Bretland og Ísland séu um margt ólík samfélög og ekki hafi verið gripið til fyllilega sambærilegra sóttvarnaaðgerða í löndunum tveimur telji sérfræðingahópur verkalýðshreyfingarinnar að varnaðarorð bresku akademíunnar eigi erindi hér á landi. Ógerlegt sé að segja til um hve langtímaáhrif faraldursins og sóttvarnaaðgerða verði en hitt sé ljóst að haldi ríki að sér höndum og dragi um of hratt úr umsvifum sínum verði áhrif kreppunnar bæði skaðlegri og langvinnari en ella.

Ég nefni þetta í samhengi við heilbrigðiskerfið, virðulegi forseti, og sér í lagi geðheilbrigðiskerfið, það er auðvitað þangað sem ég ætlaði með þetta. En það er bara alls ekki verið að gera nóg í þeim efnum, hvorki í þessu fjárlagafrumvarpi né því á undan, né því á undan, né því á undan — ég gæti svo sem farið langt aftur, vegna þess að geðheilbrigði mætir alltaf afgangi. Og nú er ég alls ekki að gera lítið úr því, ég er búin að tala um það, að heilbrigðiskerfið okkar er fjársvelt, það kemur svo, hvert leiðir af öðru, niður á heilbrigðisstarfsfólki. Reyndustu hjúkrunarfræðingarnir á bráðadeildinni eru að hætta vegna þess að þeim finnst bara ekki forsvaranlegt lengur að vinna á deild sem ekki getur tryggt öryggi sjúklinga. Þetta hefur komið fram aftur og aftur og hér situr fólk, venjulega beggja megin við mig þegar það mætir hingað í þingsalinn, og segir að það sé víst þannig, að það vanti bara enga peninga, það þurfi bara einhverja lyftara til að þetta gangi allt betur og meiri skilvirkni og að það sé svo blóðug sóun í öllum þessum kerfum. Þetta fólk er búið að vera við stjórnvölinn, eins og í tilfelli hæstv. fjármálaráðherra, í fjármálaráðuneytinu í rúm tíu ár án þess að hafa lagað nokkurn skapaðan hlut. Hann hefur bara gert hlutina verri þegar kemur að heilbrigðiskerfinu, miklu, miklu verri.

Mig langar að vitna í nefndarálit hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar þar sem hann segir, með leyfi forseta, að heilbrigðismál séu umfangsmesta verkefni ríkisins með rúmlega 328 milljarða kr. útgjöld og einhverra hluta vegna komi ríkisstjórnin með rúmlega 12 milljarða breytingar fyrir 2. umr. fjárlaga. Þetta er einmitt ein helsta ástæðan fyrir því að stjórnarandstaðan benti á að fjárlagafrumvarpið væri í raun óklárað þegar það var lagt fram í haust, en í heildina er ríkisstjórnin að bæta við rúmlega 50 milljörðum kr. inn í 2. umr. fjárlaga, sem er örugglega einhvers konar met miðað við að ekkert stórkostlegt hefur gerst frá framlagningu fjárlagafrumvarpsins.

En að geðheilbrigðismálunum: Mig langar að vísa til umsagnar Geðhjálpar, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Landssamtökin Geðhjálp hafa um langt árabil bent á þá staðreynd að geðheilbrigðiskerfið er vanfjármagnað. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðiskerfið, sem kom út í vor, þá eru fjárframlög til málaflokksins tæplega 5% af heildarfjárframlögum til heilbrigðismála. Á sama tíma er áætlað umfang geðheilbrigðismála af heildinni í kringum 25%.“

Hvenær á t.d. að niðurgreiða sálfræðiþjónustu? Það kemur ekkert fram um það í fjárlögunum.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að þessi — mér finnst það alltaf vera svolítið orðagjálfur að tala um að geðheilbrigði skipti máli en það er alltaf látið mæta afgangi. Ég hef upplifað það sterkt í minni vinnu við að reyna að endurskoða lögræðislögin að það má draga lappirnar endalaust í því verkefni. Þetta eru ólög sem eru búin að vera í gildi síðan 1997. Það er búið að benda okkur á að meira að segja fyrirrennarar þeirra laga og svo núgildandi lög og lögin eins og þeim var breytt 2016, alveg síðan 1994 eða hvort það var 1998 — það er búið að benda okkur á að þessi lög mismuna fólki með geðsjúkdóma og geðfatlanir og það er bara ekki búið að laga það enn þann dag í dag. Þetta er auðvitað lýsandi og þetta er gegnumgangandi þegar kemur að geðheilbrigðismálunum — ég meina, heilbrigðismálin eru látin mæta afgangi. Það þarf að gera miklu betur í þeim, algjörlega, augljóslega, en það er eins og geðheilbrigðismálin séu þremur skörum lægra, eins og sést á svo mörgu þegar kemur að geðdeildunum. Það er út af fyrir sig grundvallargalli á samfélagi okkar að bráðageðdeild Landspítalans sé ekki bara opin allan sólarhringinn og að fólk komist ekki þar inn ef það á við bráðan geðvanda að stríða hvenær sem er sólarhringsins þegar það þarf á því að halda. Það er ákveðið niðurbrot á samfélagssáttmálanum okkar að jafn ríkt þjóðfélag og við skuli ekki hafa bráðageðdeild sem er opin allan sólarhringinn; að fólk komist varla þar inn nema það sé búið, liggur við, að gefast upp á lífinu og stundum er í raun ekki hægt að fá aðstoð fyrr en það er orðið of seint.

Við erum í landi sem á við viðurkennt vandamál að stríða þegar kemur að tíðni sjálfsvíga, virðulegi forseti. En það er ekki að sjá á stefnu ríkisstjórnarinnar á þessum fjárlögum að það sé í einhverjum forgangi að bregðast við því, bara alls ekki. Langt í frá. Þrátt fyrir allar þessar vitundarvakningar í gegnum tíðina, um að geðheilbrigðismál séu í raun og sann bara nákvæmlega eins og önnur heilbrigðismál, þá er það bara ekki þannig. Það sést mjög vel á þessum fjárlögum. En ég er búin að finna hérna — það er gerð tillaga um 500 millj. kr. til að efla viðbragð lögreglu og löggæslustofnana gegn skipulagðri brotastarfsemi. Það er til þess að tryggja samræmingu og samhæfingu lögreglu á landsvísu, og einmitt það sem ég minntist á áðan, að gert er ráð fyrir 150 millj. kr. til búnaðarkaupa og tækniþróunar lögreglu. Ég vona að lögreglan sé að hlusta og komi hlerunarbúnaðinum sínum í LÖKE, eins og hún hefur átt að gera síðan 2016, ef hún vill eygja von til þess að njóta trausts til að gegna þessu hlutverki áfram.

Ég var með einn punkt í viðbót, virðulegi forseti, málefni fatlaðs fólks. Það er annar hópur sem fær líka alltaf að mæta afgangi, bara sífellt og endurtekið. Málaflokkurinn er einhvern veginn afhentur sveitarfélögunum og síðan er hann fjársveltur af ríkisvaldinu sem kennir síðan sveitarfélögunum um að vera ekki nógu góð í að sinna málaflokknum en skreytir sig síðan með stolnum fjöðrum í því að vera búin að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég er hér auðvitað að vísa til fjármögnunar á NPA-samningum sem er í trássi við lög, það er bara í trássi við lög, virðulegi forseti. Það stendur í lögunum að rúmlega 170 samningar eigi að vera inni í myndinni en það á að veita heimild fyrir einhverju miklu minna. Ég held að það séu 90 samningar núna og það er verið að tala um að kannski fáum við heimildir fyrir 50 í viðbót. Það eru ekki rúmlega 170 samningar, virðulegi forseti. Við vitum að það eru biðlistar eftir þessari þjónustu — ja, þessari þjónustu, það segi ég í raun ekki einu sinni réttilega vegna þess að þetta eru auðvitað bara sjálfsögð og algild mannréttindi.

Eins og ég hef endurtekið komið inn á í þessum ræðustól þá setur maður ekki kvóta á mannréttindi, það er bara ekki ásættanlegt, virðulegi forseti. Mannréttindi eru algild og það er ekki hægt að setja kvóta á mannréttindi. Þessi fjárlög lýsa svo vel einhverjum firrtum hugsunarhætti, að það sé bara í lagi að setja kvóta á sjálfsögð mannréttindi fólks. En það er ekki í lagi, virðulegi forseti, við erum búin að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en við virðumst ekki hafa neinn metnað fyrir því að lögfesta hann. Enda er, eins og svo oft, miklu þægilegra og betra að segjast bara ætla að gera eitthvað á blaði. Um leið og það er farið að kosta einhverja peninga eða kosta einhverja vinnu eða einhvers konar átak, eða áhuga á því að láta verkin tala, þá allt í einu skiptir það ekki jafn miklu máli. Það er nóg að kvitta bara í eitthvert box og segja: Við erum búin að undirrita og við erum búin að skrifa upp á pappíra um að við séum búin að fullgilda en við ætlum ekki að lögfesta vegna þess að það kostar tíma og fyrst og fremst peninga að gera það. Og við erum ekki til í að borga þá peninga. Þessi forgangsröðun sýnir þessa grundvallarvanvirðingu sem ég hef verið að benda á: Fátækustu hóparnir njóta ekki sömu réttinda eða ívilnana og þeir ríkustu.