Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[02:36]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég tek undir þetta, ég fæ oft þessa tilfinningu að það sé bara verið að gera eitthvað til málamynda hérna, það sé verið að fylla í box: Við fengum umsögn. Við skrifuðum nefndarálit. Við höfðum umræðu í þingsal. Æ, hún er óþægilega löng fyrir okkur, reynum að rumpa henni af með því bara að keyra hana fram á nótt af því að við ætlum hvort eð er bara að tékka í boxið. Við vitum alveg hvað við ætlum að segja hvort eð er og hvernig við ætlum að greiða atkvæði og hitt er bara fyrir.

Mig langar til að vitna aðeins í hv. fyrrverandi þingmann, Helga Hjörvar, sem sagði hér í eitt skiptið sem verið var að reyna svipaða hluti, með leyfi forseta:

„Þess vegna er full efnisleg ástæða til að fara vel í það í dag, og sömuleiðis að ef einhverjar ræður þingmanna Samfylkingarinnar verða fluttar eftir miðnætti verða þær endurfluttar hér í dagsbirtu, enda eiga þær fullt erindi við daginn og nægur tími og réttur til að taka þannig til máls.“

Mér finnst þetta áhugavert sjónarhorn, forseti, því að ef þetta er ekki til málamynda þá ættum við væntanlega að geta tekið efnislega til máls þegar aðrir þingmenn geta gert athugasemdir.