153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

dagskrártillaga.

[13:18]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Varðandi frumvarp til breytinga á lögum um útlendinga þá á ég sæti í allsherjar- og menntamálanefnd. Núna síðustu vikur hafa verið gerðar ýmsar undarlegar breytingar á frumvarpinu, m.a. vegna þess að fulltrúi félagsmálaráðuneytis fann ákveðinn galla í ákveðinni grein í frumvarpinu. Einnig fannst skyndilega í innboxi hjá alþingi.is umsögn, ein besta og mikilvægasta umsögnin um frumvarpið, frá fulltrúa Norður-Evrópudeildar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem nú á að fara að þýða eftir umræðu í nefndinni. Svo er komin önnur breyting frá meiri hlutanum um að fela lögreglunni ákveðið vald sem henni var áður ekki falið, svo það væri þægilegra fyrir aðra. Flokkur fólksins er tilbúinn með nefndarálit og breytingartillögu til að bæta þetta frumvarp og koma einhverju viti í það en ég tel mjög mikilvægt að við ræðum hér fjárlög fyrir jól og fjáraukann fyrir jól og þau mál sem við leggjum aðaláherslu á, sem eru að við tryggjum það (Forseti hringir.) að góðgerðarstofnanir sem sjá um matargjafir fái pening til að sinna störfum sínum og líka það að aldraðir fái eingreiðslu eins og öryrkjar.