153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:56]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir andsvarið. Stórt er spurt. Ég veit ekki hvort ég vil skilja hugarfarið sem liggur að baki þessum hækkunum. Ég veit ekki hvað ég á að segja, ég held að þetta sé bara góð og gamaldags græðgi, ef maður getur orðað það þannig. Þetta er fólk sem er í yfirburðastöðu og það er að beita henni gagnvart fólki í veikri stöðu. Eins og ég segi, ég vil ekki einu sinni skilja ástæðurnar. Það kom einhver yfirlýsing frá einhverjum frá Ölmu sem sagði einmitt að þeir væru að gera þetta út af því hvernig efnahagsástandið væri. Við skulum bara segja það. Eins og hv. þingmaður nefndi þá eru heimilin líka að ganga í gegnum þetta sama efnahagsástand en það eru ekki sömu afleiðingarnar fyrir heimilin. Heimilin hafa ekki, og sérstaklega ekki þær fjölskyldur sem eru að leigja hjá Ölmu, einstaklingar og fjölskyldur, sama borð fyrir báru og leigufélagið til að berjast við það sem er að gerast í þessu efnahagsástandi. Það sem leigufélagið er að gera, eins og málið sem hefur verið í umræðu — þar var leigan 260.000 kr., fer upp í 320.000 kr., en það eru tekjurnar sem þessi tiltekna kona hefur á mánuði. Áður hafði hún 60.000 kr. til að lifa af. Ég spyr: Hvað er að hjartanu í fólki sem gerir svona? Hvernig er þetta hægt? Er þetta bara það sama gamla og kemur frá bönkunum? Þetta er bara krafa fjárfesta, þetta er bara arðsemiskrafan. Við erum að hækka hana. Hvað er það? Og eins og ég segi, eigendurnir með 85 milljónir í laun á mánuði — hvað vilja þeir fara upp í? 120 milljónir?