153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:00]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir þetta. Já, það voru ekki bara íbúðir sem fóru til Íbúðalánasjóðs, það var fjöldi íbúða, sennilega hátt í 10.000, sem fór til bankanna. Það fóru a.m.k. 10.000 á nauðungarsölum og sennilega álíka margar í gegnum nauðasamninga við bankana. Hagsmunasamtökin hafa farið varlega ofan í þetta og sagt 15.000. Hvernig á að vinda ofan af þessu? Það þarf að fara fram rannsókn á aðgerðunum gegn heimilunum eftir hrun. Þess vegna hef ég verið að berjast fyrir því, og mun mæla fyrir því fljótlega á næsta ári, að gerð verði rannsóknarskýrsla Alþingis, um aðgerðir sem farið var í eftir hrun gagnvart heimilum landsins. Þetta hefur aldrei verið rannsakað. Það vill enginn vita hvernig þetta fór vegna þess að sú skýrsla verður svakalegur áfellisdómur yfir íslenska stjórnkerfinu. En við verðum að fara yfir þetta og ég ætla að treysta því að allir þingmenn styðji þá tillögu að þessi skýrsla verði gerð þegar ég legg hana fram eftir áramótin.