153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:01]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar ræðu. Ég þekki það af samstarfi mínu við hv. þingmann í efnahags- og viðskiptanefnd að henni er mjög umhugað um meðferð fjármuna ríkisins, að þeim sé varið til þeirra sem mest þurfa á þeim að halda og að við séum heldur ekki að sólunda almannafé. Ég er með tvíþættar spurningar. Í fyrra andsvari mínu spyr ég út í tekjubandorminn sem snýr vissulega að öðru máli en er beintengt þessu máli. Það stendur til að hækka öll krónutölugjöld upp úr öllu valdi, 7,7% þvert yfir línuna. Þetta er, eins og komið hefur verið inn á hér, svokallaður regressífur skattur sem þýðir að hann hefur neikvæðustu áhrifin á lægstu tekjuhópana og minnstu áhrifin á hæstu tekjuhópana. Ég vildi biðja hv. þingmann um að fara aðeins í gegnum það með mér hvað það er eiginlega í þessu fjárlagafrumvarpi sem kemur best út fyrir lægstu tekjuhópana, vegna þess að ég finn það ekki. Þess í stað á að hækka skattana á þá sem síst mega við því. Er þetta ekki, að mati hv. þingmanns, einmitt lýsandi fyrir hagstjórn þessarar ríkisstjórnar? Við sjáum auðvitað hvert dæmið á fætur öðru um það að efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar gagnast best þeim sem hafa mest á milli handanna og verst þeim sem hafa minnst á milli handanna. Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hún deili þessari upplifun með mér.