153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:04]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég finn ekkert í þessum bandormi eða neins staðar í þessu fjárlagafrumvarpi sem er gott fyrir þá sem minnstar hafa tekjurnar, bara ekki neitt. Þessi 7,7% krónugjaldahækkun er náttúrlega eitthvað sem mun fara beint inn í vísitöluna sem mun þá um leið hækka verðtryggðu lánin. Þetta er svona keðja sem vindur upp á sig. Það er tekið af þeim sem verst hafa það í samfélaginu úr öllum áttum. Á sama tíma má ekki leggja á hærri bankaskatt. Það er eitt. Af hverju var bankaskatturinn lækkaður úr 0,376% — þetta er undir 0,4% — niður í 0,145%? Hvað er það? Og það er gert af hræðslu við að annars muni bankarnir hækka vexti og þjónustugjöld. Í fyrsta lagi hafði lækkun bankaskattsins engin áhrif til lækkunar vaxta, ekki nein, fyrir utan að við erum að horfa á alveg gríðarlegar vaxtahækkanir hjá þeim þannig að þetta hefur engin áhrif. Hvað varðar þjónustugjöld þá eru þau ekki stóra málið í útgjöldum neytenda um hver einustu mánaðamót. Kannski 2.000 eða 3.000 kr. á mánuði ef þá það, örugglega ekki meira. En nei, það má auka álögur á heimilin eins og ég veit ekki hvað í gegnum vaxtakerfið en síðan má ekki láta bankana borga neitt til baka af því að þá gætu þeir hugsanlega hækkað þjónustugjöld. Hversu hrædd ætlum við að vera við þetta og hvers konar ríki í ríkinu eru þessir aðilar orðnir?