153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:09]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir alveg hreint frábæra ræðu, margt sem hv. þingmaður kom inn á sem skiptir miklu máli, sér í lagi núna þegar við erum að ræða fjárlög næsta árs. Eitt af því sem við sjáum í þessu frumvarpi og líka í því sem er að gerast í umhverfinu er, eins og hv. þingmaður benti á, vaxtahækkanir, verðbólga o.s.frv. og eina tólið sem að þeir sem sjá um efnahagsstjórnina hérna virðast hafa er að hækka vexti, sem kemur náttúrlega niður á þeim heimilum sem minnst hafa milli handanna. Samt er það þannig að verðbólgan er að miklu leyti vegna hækkana á hlutum erlendis; hækkunar á olíu, hækkunar á mat og öðru. En hvað gerir ríkisstjórnin? Jú, hún hækkar líka gjöldin sín á þessum sömu hlutum. Einhvern veginn virðist þetta vera vítahringur sem kemur kannski ekki illa niður á þeim sem eiga fullt af milljónum inni á bankabók og fara út að borða á hverju kvöldi o.s.frv. eða getað haldið veislur fyrir tugi manna heima hjá sér á auðveldan máta. Er ekki verið að gera eitthvað vitlaust í þessu öllu saman? Þurfum við ekki virkilega að skilja hvernig við getum unnið saman að því einmitt að lækka þessi gjöld? Ég hefði viljað sjá lækkun á hinum og þessum gjöldum til að koma til móts við þá sem hafa minni pening og þá þyrftum við ekki að vera að hækka þessa vexti?