153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ég er innilega sammála. En spáum í þessum rafrænu skilríkjum. Núna er fullt af fötluðum einstaklingum og aðstandendum þeirra að lenda í gífurlegum vandræðum með rafræn skilríki og það virðist einhvern veginn vera eins og allir dragi lappirnar, það virðist engin lausn geta verið á því. Það er mjög bagalegt, það segir sig sjálft, að ef einhver er að fá greiðslur inn á reikning sem hann þarf nauðsynlega á að halda til að geta notað til daglegra þarfa og það sé vonlaust, viðkomandi getur ekki nýtt sér það af því að hann hefur ekki rafræn skilríki og getur ekki fengið þau og aðstandendur geta ekki nýtt sér það vegna þess að það má ekki. Við erum hreinlega að setja stóran hóp fólks í útlegð, út úr ákveðnu kerfi, með þessu. Það er alltaf verið að tala um að það sé verið að finna lausnina, ég er búinn að heyra það svo lengi. Ég held að það sé kominn tími til að fundin verði lausn á því.