153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:32]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hjó eftir orðunum sem hann notaði í ræðu sinni þegar hann nefndi þjónustu við fólk í neyð. Það ætti auðvitað að vera yfirskrift alls þess sem við erum að gera, bæði hér og hvar sem við erum, að reyna að styðja við fólk sem býr við örbirgð og neyð. Og af því að hv. þingmaður þekkir nú ágætlega til víðs vegar um heiminn hvað varðar þróunaraðstoð þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvað honum finnst um frammistöðu okkar þegar kemur að þessum málaflokki. Erum við sem þjóð, við sem rík þjóð, að standa okkur til jafns við aðrar ríkar þjóðir þegar kemur að þróunaraðstoð?