153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:33]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Erum við að standa okkur vel? Ja, ég held að á mörgum sviðum séum við að gera það. Við verðum að vera stolt yfir því hvernig Ísland er að styðja við stofnanir alþjóðasamfélagsins eins og t.d. UN Women. Þar erum við einn af toppaðilunum í að fjármagna, ekki miðað við höfðatölu heldur bara yfir höfuð, þannig að við erum að gera margt gott í því. En það var nú þannig að fyrir þónokkrum mörgum árum síðan var gefið út að lönd ættu að eyða um 0,7% af sinni landsframleiðslu í þróunaraðstoð. Við erum í 0,35%. Jú, það var flott að við hækkuðum það úr 0,32% í 0,35% á síðasta ári en það er engin hækkun skipulögð í ár, engin hækkun skipulögð næsta ár á eftir og við erum ekki búin að teikna veginn að 0,7%. Þess má geta að sumar af Norðurlandaþjóðunum eru komnar í 1% eða yfir.