153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:35]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Halda skal á lofti því sem vel er gert og það er ágætt að hv. þingmaður nefni það hér þar sem við erum að standa okkur vel. En þetta eru sláandi tölur að heyra að við séum ekki einu sinni hálfdrættingar á við margar þjóðir sem eru í kringum okkur.

Það sem mig langar kannski til að nefna við hann í seinna andsvari mínu hér er sá fjöldi flóttamanna sem hingað hefur komið vegna stríðsins í Úkraínu. Við vorum öll sammála um að bjóða alla þá sem óska eftir því að koma hingað velkomna til landsins en því miður hefur það ástand einhvern veginn verið nýtt til að minnka þá vinsemd okkar gagnvart öðru fólki sem svo sannarlega býr við það sem hv. þingmaður sagði, neyð. Erum við t.d. að nota fjármuni sem hefðu farið í þróunaraðstoð í að hjálpa flóttamönnum frá Úkraínu?