153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:46]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Auðvitað er stundum verið að spyrja stórra spurninga hér og lítill tími til svara, ég geri mér grein fyrir því, þess vegna er ég að pæla í að bæta jafnvel um betur og fara í enn stærri spurningu þrátt fyrir að hv. þingmaður hafi jafn lítinn tíma til að svara. Það er annað varðandi fjárlagagerðina almennt vegna þess að mér fannst ótrúlega áhugavert að fylgjast með því núna fyrr í þessari viku frekar en seint í síðustu viku þegar seðlabankastjóri steig mjög afgerandi inn í umræðuna og fór að tala um að það væri algerlega augljóst að ríkisstjórnin væri ekki með Seðlabankanum í liði í því að ná niður verðbólgu og þar með þá auðvitað vöxtunum líka, þ.e. ríkisfjármálin eru ekki í sama takti og Seðlabankinn vill fara í. Þá langaði mig bara að fá svona smá pælingar frá þingmanninum um það hvort það megi ekki alveg líta svo á að þegar seðlabankastjóri stígur inn með þeim hætti sem hann gerði þarna sé það hreinn áfellisdómur yfir þeirri fjárlagagerð sem við erum núna að ræða.