153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:04]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Já, þetta er athyglinnar virði. Ég get stundum ekki annað en skellt upp úr því að hv. þingmaður kemst svo skemmtilega að orði oft og tíðum. Ég hef verið með honum í fjárlaganefnd og veit hvað hann er fylginn sér og glæsilegur fulltrúi þar inni. Það er bara þannig. Þannig að ég segi: Ég hef oft haft gaman af því hvað hann er ekkert að skafa af því. Og þarna kemur það berlega í ljós, eins og hv. þingmaður kemur inn á, að ef peningarnir eru búnir, ef kjarasamningarnir kostuðu meira og það þyrfti nú að leggja fleiri krónur í það, þá heyrist bara: Æ, æ, bíð þú í bílnum, fatlaði maður sem þyrftir NPA, vegna þess að við eigum enga peninga fyrir þig. Þannig er það nú bara. En staðreyndin er sú að sífellt hefur ríkisvaldið verið að færa fleiri verkefni yfir á hendur sveitarfélaganna, sem eru mörg hver einfaldlega að sligast undan þeim, algjörlega. En í staðinn fyrir að aðstoða sveitarfélögin þá er farið í einhverja flottræfilsvillubyggingar eins og að kaupa hérna í Snobbhill niðri á Austurbakka fyrir 6 milljarða og mublera upp í Svörtuloftum fyrir 3 milljarða í Seðlabankanum. Og okkur er eiginlega sagt að hætta nú að fara til Tenerife, við förum of mikið til Tenerife til að sóla á okkur tærnar, það hafi verulega neikvæð áhrif á verðbólguna.