153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:14]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að snúa mér að því sem kallað er meginmarkmið frumvarps til fjárlaga, það snýr að fjórum lykilþáttum. Þessi fjárlög eru byggð á þessum fjórum meginmarkmiðum. Mig langar að lesa tvö þeirra:

„3. Staðinn verður vörður um heimilin í landinu, einkum með því að stuðla að því að viðkvæmir hópar séu varðir fyrir áhrifum verðbólgu. Lögð er áhersla á að innviðir og grunnþjónusta séu styrkt og á að viðhalda raunvirði bóta almannatrygginga.

4. Áframhaldandi lífskjarasókn. Mikill tekjuvöxtur hefur styrkt stöðu heimilanna á undanförnum árum og hefur staða þeirra aldrei verið sterkari. Með því að stuðla að áframhaldandi hagvexti verður Ísland í mun sterkari stöðu en mörg nágrannalönd okkar.“

Svo mörg voru þau orð. Þegar ég les þetta — ég spyr um veruleikann. Ég næ ekki alveg í hvaða veruleika þeir eru sem setja þessi orð á blað sem yfirskrift frumvarps sem á að halda utan um þjónustuna við íbúa þessa lands og ekki síst að styðja þá sem höllustum fæti standa í samfélaginu. Mig langar bara spyrja hv. þingmann, sem er nú að beita sér verulega fyrir hagsmunum þeirra sem verst standa: Er þetta ekki bara eitthvert grín?