153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:02]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi Forseti. Þúsundir öryrkja bíða eftir eingreiðslu sem Alþingi sameinaðist um fyrir örfáum vikum að yrði veitt fyrir jól. Forsenda þess að Tryggingastofnun ríkisins geti greitt út þessa eingreiðslu og forsenda þess að eingreiðslan komi ekki til skerðingar vegna annarra tekna er sú að það verði samþykkt hér fjáraukalög og frumvarp, sem samstaða náðist um í velferðarnefnd, um þessa eingreiðslu. Mér finnst skjóta skökku við, þegar þúsundir bíða eftir þessu, að frumvarp velferðarnefndar sé níunda málið á dagskrá þessa dagana, að fjáraukalögin séu ekki á dagskrá. Mér finnst þetta ofboðslega skringileg forgangsröðun og ég vil hvetja hæstv. forseta eindregið til að endurskoða þessa forgangsröðun á dagskránni og setja þessi mál, sem samstaða er um hér í þingsal, framar á dagskrána svo við getum afgreitt þessi mál sem allra fyrst og til þess að Tryggingastofnun geti greitt út þessa eingreiðslu til öryrkja sem allra fyrst. Mér finnst algjörlega óboðlegt að við hér á Alþingi, eða stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi sem fer með dagskrárvaldið, (Forseti hringir.) séum í raun að þvælast fyrir því með þessum hætti að þessi eingreiðsla verði veitt allra tekjulægsta fólkinu á Íslandi. Mér finnst það óboðlegt.