Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[10:38]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns, flutningsmanns, er þverpólitísk samstaða um þetta góða mál. Ég vil fagna þeirri samstöðu, fagna því að Alþingi ætli að gera hæstv. fjármálaráðherra afturreka með þá tillögu sem birtist í fjáraukalögum að helminga þessa eingreiðslu þegar verðbólga er í hæstu hæðum. Svo verður ekki. Ég fagna því líka að þetta mál hafi verið sett hér fremst á dagskrána í samræmi við kröfur sem við í stjórnarandstöðunni höfðum uppi í gær.

Ég hef hins vegar dálitlar áhyggjur af þeim hópi fólks sem hefur kannski verið á örorku drjúgan hluta ævinnar og er með mjög takmörkuð réttindi í lífeyrissjóðum af þeim sökum en er orðið 67 ára. Ég er að tala um öryrkja sem eru eldri en 67 ára og ég vil kannski fá að varpa þeirri spurningu til hv. þingmanns og flutningsmanns: Var það eitthvað skoðað í velferðarnefnd hvort unnt væri að bregðast við í þágu þessa hóps? Hér erum við að tala um hóp sem er fólk sem er í mörgum tilvikum jafnvel með lægri tekjur en sumt af því fólki sem mun fá þessa eingreiðslu. Ég velti þessu upp svona bara út frá jafnræðissjónarmiðum og sanngirnissjónarmiðum. Var engin leið að ná samstöðu um að styðja við tekjulægsta eftirlaunafólkið, tekjulægstu eldri borgarana?