Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[10:41]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Það hefur auðvitað verið sagt áður hér í þessum stól og hljómar kannski eins og klisja en það er nú bara það sem ég hef sagt; það borðar enginn heildarendurskoðun og það hefur ósköp lítið upp á sig fyrir fólk sem skrimtir að vera bara sagt ár eftir ár að það sé einhver heildarendurskoðun í gangi. Á einhverjum tímapunkti fara þessi fyrirheit um heildarendurskoðun að vera hálfgert skálkaskjól og réttlæting fyrir því að neita fólki um kjarabætur hér og nú. Það er til ósköp einföld leið til þess að styðja betur við tekjulágt eldra fólk, það er að hækka greiðslur almannatrygginga og fylgja 69. gr. almannatryggingalaga um að greiðslurnar skuli þróast í takt við bæði launaþróun og aldrei verða lægri en sem nemur verðlagsþróun.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hugnast hv. þingmanni að kannski að Alþingi taki sér tak þegar kemur að umgengni við þessa 69. gr. almannatryggingalaga, að tryggja raunverulega að greiðslur fólks í almannatryggingakerfinu fylgi launaþróun í landinu? Hvernig væri það nú?