Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[10:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Jú, það er hægt að þakka fyrir að þessar 60.300 kr. séu að skila sér til þeirra sem virkilega þurfa á því að halda, til öryrkja sem eru því miður margir komnir á þann stað að vera að flosna upp úr húsnæði og standa í biðröðum eftir mat fyrir sig og fjölskyldur sínar.

67 ára öryrki, hann er ekki lengur öryrki, hann er ellilífeyrisþegi. Hann er heilbrigður í boði ríkisins og telst ekki lengur veikur. Það hefur áhrif á tekjur hans sem er auðvitað fáránlegt. Við getum bara tekið sem dæmi einstakling sem fæðist með fötlun. Hann er í örorkukerfinu alla sína tíð og fær aldurstengda uppbót vegna þess að hann lendir svo snemma í kerfinu, við 18 ára aldur. En þegar viðkomandi einstaklingur verður 67 ára missir hann þessa aldurstengdu uppbót. Þá er hann orðinn heilbrigður í boði ríkisins. Þessi einstaklingur hefur kannski aldrei unnið neitt, hefur aldrei komist út á vinnumarkaðinn og á því engan lífeyrissjóð. En ef hann hefði nú bara getað unnið þrátt fyrir fötlun sína, sem margir leggja ótrúlega mikið á sig til að gera, og eignast lífeyrissjóð, þá er kerfið svo bútasaumað og vitlaust að það hefði refsað honum grimmilega. Við verðum líka að átta okkur á því að þegar umræða var hér um að verið væri að endurskoða almannatryggingakerfið fyrir öryrkja — sennilega var það misskilningur hjá hv. þingmanni áðan að verið væri að endurskoða fyrir 67 ára og eldri, en það er búið að breyta kerfinu fyrir þá, það er verið að endurskoða málefni öryrkja. Og hvað er þá verið að endurskoða í málefnum öryrkja? Því miður virðist allt stefna í að það eigi að koma á starfsgetumati. Það kemur skýrt fram í framlengingu á greiðslutímabili endurhæfingarlífeyris sem á að fara úr þremur árum í fimm ár. Þar stendur: Lög um starfsendurhæfingu með atvinnuþátttöku að markmiði eru talin raunhæf.

Ég hef mælt fyrir því að við komum á miðstöð endurhæfingar, hvort sem er varðandi starf, nám eða eitthvað annað sem hentar. Fyrsta málið sem ég kom með inn á dagskrá þingsins á sínum tíma varðaði einmitt skerðingar á örorkustyrkjum. Þá rakst ég á það af eigin raun hvernig kerfið virkaði. Ég hafði ekki haft hugmynd um þetta. Ég átta mig á því að flestir hér inni gera sér enga grein fyrir því hvernig er að lifa ár eftir ár, áratugum saman, í þessu arfavitlausa kerfi sem hefur verið búið til. Það er gjörsamlega óskiljanlegt að enn séu einhverjir draumar um að verið sé að endurskoða þetta kerfi. Ég er búinn að vera í endurskoðunarnefndum og draumurinn um endurskoðun örorku- og almannatryggingakerfisins hefur staðið áratugum saman. Ég sé það ekki í hendi að því sé að ljúka. Meðan maður sér ekki hvað er á spilum ríkisstjórnarinnar, hvað hún ætlar sér að gera, þá hef ég því miður ekki mikla trú á að þarna sé verið að bæta virkilega í og koma fólki til hjálpar.

Ef við horfum á þessar 60.300 kr. skatta- og skerðingarlaust ættu þær að vera í hverjum einasta mánuði hjá þessum hópi. Þótt svo væri er það samt ekki nóg til að ná upp í kjaragliðnun undanfarinna áratuga. Eldri borgari sem hefur lagt sig fram um að lifa heiðarlegu lífi, borgar í sinn lífeyrissjóð af því að hann er lögþvingaður til þess og fær síðan út úr lífeyrissjóðnum sínum og fer á eftirlaun — hvað skeður þá? Þá er þessi lífeyrissjóður notaður gegn honum til að skerða 45% aðrar skattskyldar tekjur. Það er ekki látið duga. Þetta er svo einbeittur brotavilji. Hugsið ykkur, að svo kemur kerfið og segir: Heyrðu, við ætlum að láta þig fá orlof. Við ætlum að láta þig fá jólabónus í desember. Nei, aldeilis ekki. Hann dirfðist, þessi eldri borgari, að borga í lífeyrissjóð og fær greiðslur úr lífeyrissjóði. Þeir nota það líka til að skerða orlofið og jólabónusinn alveg niður í núll. Hvernig í ósköpunum er hægt að segja við fólk: Heyrðu, þú ert að fá jólabónus og átt rétt á þessum jólabónus, en af því að þú borgaðir í lífeyrissjóð þá tökum við hann af þér? Hvaða skilaboð eru þetta út í samfélagið? Hvernig getum við komið svona fram við eldri borgarana okkar sem hafa byggt upp þetta land?

Þetta er eiginlega svo mikið ofbeldi að maður verður gjörsamlega orðlaus. Við sjáum þetta úti um allt kerfið núna. Við sjáum fordóma gagnvart fötluðu fólki, fólki með geðræn vandamál, tröllríða öllu kerfinu. Það fyrsta sem var gert, þegar kreppti að á vinnumarkaði, var að segja upp fötluðu fólki eða fólki með einhverja undirliggjandi sjúkdóma. Það fyrsta sem er gert þegar á að fara að spara, eins og hjá Reykjavíkurborg, er að loka á starf hjá fötluðu fólki. Og það sparar ekki neitt, það veldur bara meiri útgjöldum. En mestu fordómarnir af öllum komu skýrt fram þegar við vorum að tala um þetta starfsgetumat sem á að fara í. Það hefur komið skýrt fram að þeir sem standa sig langverst í að taka við fólki með einhverja fötlun eða veikindi eru ríki og bær. Því miður er komið þannig fram að talað er tungum tveim. Við höfum hlustað á fjármálaráðherra koma hér hvað eftir annað upp í þennan ræðustól og fullyrða: Farið inn á Tekjutíundina. Sjáið hvað við höfum látið inn í kerfið. Við höfum aldrei sett annað eins í þetta kerfi fyrr né síðar. Það er alveg rétt hjá honum en hann veit af hverju það er allt í lagi að setja inn í kerfið. Það er vegna þess að þetta er gegnumstreymiskerfi, gegnum vasa öryrkja og ellilífeyrisþega og streymir beint í ríkiskassann aftur, 70–80%.

Ef einhver lítur svo á að þetta sé heilbrigt kerfi þá ætti hann að gefa sig fram í ræðustól. Ég veit að fjármálaráðherra finnst þetta alveg frábært. En það er annað að hæla sér síðan af því að hafa sett rosalega mikið inn í kerfi sem skilar sér ekki til þeirra sem á þurfa að halda. Það segir sig sjálft að ef þú ert að halda einhverjum 20.000 kr. af 100.000 kr. þá er það ekki hvetjandi fyrir einn né neinn. Núna á t.d. að fara að hækka frítekjumark öryrkja upp í 200.000 kr. en á sama tíma á ekkert að eiga við framfærsluuppbótina sem skerðir 8.000 öryrkja út. Af hverju ætti öryrki að vinna sem sem fær ekkert fyrir vinnuna sína? Svo segja þeir: Heyrðu, það kostar svo mikið að leyfa þessu fólki að vinna. Hvernig í ósköpunum getur það kostað? Við erum að borga þessu fólki í hverjum einasta mánuði. Við erum að borga öryrkja, segjum að hanna fái 250.000 kr. útborgaðar, mánuð eftir mánuð. En ef þessi öryrki færi út að vinna og myndi vinna fyrir 200.000 kr., hverju myndi það skila? Jú, skattpeningum til okkar. En hvað segir þá ríkið? Nei, við verðum að skerða þessa peninga. Svo koma þeir með kostnað en þetta er ekki kostnaður, þetta er bara sparnaður. Allt sem þarna verður skert er sparnaður, ekki kostnaður. En þeir taka ekki tillit til þess að á móti koma skatttekjur, bæði útsvar og tekjuskattur.

Ef við værum að gera rétta hluti þá væru þessar 60.300 kr. líka að fara til 6.000 ellilífeyrisþega sem hafa það verst. Við erum ekkert að tala um stóran hóp og við erum að stærstum hluta að tala um konur. Við erum að refsa mömmum, ömmum, langömmum og langalangömmum fyrir það að þær voru heima og höfðu ekki lífeyrissjóð. Þetta fólk á skilið að fá þessar 60.300 kr. skatta- og skerðingarlaust. Við erum líka búin að átta okkur á því með örorkustyrkinn á sínum tíma sem hætt var að skatta og skerða, og kerfið er líka búið að átta sig á því og viðurkenna að 60.300 kr. verða að vera skatta- og skerðingarlausar. Ef þessar 60.300 kr. hefðu verið settar inn í kerfið óbreytt þá hefðu 48-49.000 kr. runnið aftur í ríkissjóð. Ég held að við ættum aðeins að hugleiða hvers vegna í ósköpunum við höfum búið til þetta kerfi, hvers vegna í ósköpunum við erum að viðhalda þessu kerfi og hvers vegna í ósköpunum við erum ekki löngu búin að breyta því. Það er vegna þess að ríkisstjórnir undanfarinna ára, sérstaklega fjórflokkurinn, hafa búið til þetta kerfi og umvafið það með því að bæta í það og bútasauma, gera það nógu flókið þannig að það sé alveg vonlaust fyrir venjulegt fólk að átta sig á því. Og þegar þeir segja við fólk: Við hækkuðum ykkur um 30.000 kall og fólk sér að eftir skattana kemur þarna einhver 20.000 kall inn, þá áttar fólk sig ekki á því að 1. ágúst, þegar skerðingar- og skelfingardagurinn mikli kemur, kemur bakreikningur. Heyrðu, þú fékkst þarna einhverjar 200.000 kr. yfir árið aukalega í hækkun, gjörðu svo vel að borga 180.000 af því til baka.

Ég hef séð svona reikning koma inn og ég þurfti að borga hverja einustu krónu í heilt ár. Hver einasta króna sem ég fékk frá Tryggingastofnun var tekin af mér. Út af hverju skyldi það hafa verið? Jú, glæpur minn lá í því að ég fékk eingreiðslu afturvirkt úr lífeyrissjóði, stórglæpur. En þetta voru réttindi mín. Þetta er það sem fólk er að lenda í þarna úti. Þess vegna verðum við að breyta þessu kerfi, við verðum að gera það strax og við verðum líka að sjá til þess að verst settu eldri borgararnir fái þessar 60.300 kr. skatta- og skerðingarlaust. Síðan, ef vilji væri til, ætti að setja þetta inn svo að fólk fái þetta í hverjum einasta mánuði. Ekki veitir af.