Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[12:10]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Frú forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur áður verið sagt. Þessa dagana standa yfir umræður um hvernig refirnir skuli skornir. Fjárlögin eru til umræðu og sú umræða hefur tekið einhverja daga og sér vonandi fyrir endann á henni. Ég vil fagna því sérstaklega að hér var lagt fram í morgun það mál sem við erum búin að tala um alllengi, þessi árlegi jólabónus til þeirra sem minnst hafa milli handa. Síðan þegar það er samþykkt, og ég vil þakka fyrir það mál og að tekið hafi verið undir það af öllum flokkum hér í þinginu, þá ber svo við að það hefur gleymst að hafa þá með sem kannski standa langverst í samfélaginu. Ég vil því hvetja til þess, eins og aðrir hafa gert, að sú breytingartillaga hv. þm. Ingu Sæland sem lögð var fram í morgun verði samþykkt. Ég er sannfærður um að í hjarta sínu eru allir sammála því að okkur sé ekki sæmandi að skilja eftir 6.000 manns sem hafa lent á milli skips og bryggju í ófullkominni lagagerð. Ég held að þau lög hafi ekki verið nægilega vel ígrunduð og það þarf að laga þau til frambúðar og koma þessu í réttan farveg. Ég tek því undir það og ég treysti því að áður en þingi verður slitið hér muni þessi 6.000 allra verst stöddu í samfélaginu fá leiðréttingu sinna mála.

Síðan vil ég segja það, af því að fjárlögin verða vonandi til umræðu síðar í dag, og vonandi næst sátt um að afgreiða þau og koma þeim í nefnd og síðan til seinni umræðu, að ég man fyrst eftir fjárlögunum, íslensku fjárlögunum, heima hjá mér sem barn. Þar voru hefti eftir þá Halldór Jónasson og Sigfús Einarsson, það voru tvö hefti með 150 lögum hvort, 300 íslensk sönglög útsett og skrifuð. Þetta voru þau íslensku fjárlög sem ég ólst upp við. Og hvers vegna voru þau kölluð fjárlög? Forsíðu heftisins prýddi falleg vatnslitamynd af pilti og stúlku í sveit hvort sínum megin gljúfurs, ungt fallegt fólk að gæta fjár. Þetta voru fjárgæsluungmenni og þeirra beið framtíðin og ávextir lenda þeirra skyldu síðan byggja landið rétt eins og ávextir lenda sauðkindanna beggja vegna gljúfursins. Hvers vegna er ég að rifja þetta upp? Fjárýslufólkið okkar — í Biblíunni segir frá því hvað reytti sjálfan Jesú Krist til reiði, þ.e. hvernig refirnir voru skornir í kauphöll síns tíma, þegar öllu var um koll velt. Honum misbauð, rétt eins og okkur hefur verið misboðið ítrekað af okkar fjársýslufólki síðari tíma, fólkinu sem var treyst fyrir fé okkar landsmanna beggja vegna gljúfurs, bæði hinna fátæku og ríku, hvernig það fór allt saman. Það var ekki nógu vel hugað að fé okkar og við erum mörg örótt eftir. Það eru liðin 14 ár en það er erfitt að gleyma svo dramatískum umbyltingum. Það var tekið lán upp á 20 milljónir sem síðan allt í einu urðu 40 yfir eina nótt og kröfur gerðar á menn og fyrirtæki um skilyrðislaus uppgjör og ekki mikla miskunn að hafa nokkurs staðar. En vegna þess hve illa var þar á spöðum haldið og hve illa hefur gengið að rétta hlut þeirra sem þar urðu verst úti, misstu heimili sín og aleigu, fjölskyldur sínar og lífshamingju, þá er alveg sérstaklega mikils um vert að kjör fórnarlamba þessa fjársýslu- og fjárglæfraævintýris okkar, þess stærsta í Íslandssögunni, verði sérlega höfð í huga og leiðrétt með sem bestum hætti. Og eins og oft hefur verið vikið að nú þegar í morgun, að heildarendurskoðun, sem ekki verður í aska látin né snædd, feli það í sér að þeir sem eru komnir á þann stað í lífinu eftir heillar ævi strit skulu ekki skildir eftir, hvorki þessi 6.000 né hinir sem báru þar skarðan hlut og tóku engan þátt í því fjársýslubralli sem stöðugleikaframlögin fólu í sér. Þeim var dreift á alla, ekki þá sem guldu fjársýsluklúðrið dýru verði.

En samviska okkar allra er hér í húfi þegar við erum að ganga frá þessum íslensku fjárlögum fyrir 2023. Ég er sammála síðasta ræðumanni, hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni, að hér í þessum sal eru almennt vel þenkjandi konur og menn og það líður engum vel með það að vita af fólki í slíkri bráðafátækt sem raun ber vitni í dag og heyra mátti af þeirri lýsingu sem hér var miðlað af hv. þm. Ingu Sæland. Sú frásögn kom mjög við marga sem á hlýddu, saga úr raunveruleikanum fyrir örfáum árum, þar sem ekki var til fyrir jólamatnum og erfitt að þiggja ölmusu frá börnum sínum við slíkar aðstæður. Við skulum ekki láta það vera raunveruleika um þessi jól né nokkur jól hér á eftir meðan við byggjum þetta ríka og góða land sem við gerum. Þess vegna treysti ég því að samviska okkar allra bjóði okkur að leiðrétta þann ágalla í löggjöfinni sem skilur eftir 6.000 manns við fátækramörk um sjálf jólin. Við lagfærum það, þurfum ekki að hafa um það mörg fleiri orð eða margar fleiri ræður heldur verður það leiðrétt á sama hátt og var gert fagurlega hér í morgun þegar 60.300 kr. voru færðar í jólabónus þeim sem mest þurftu á að halda, nema þessum sem gleymdust. Við skulum ekki skilja eftir 6.000 né 60.000. Við skulum láta alla njóta þeirra gæða sem við eigum sameiginleg í auðlindaformi og í víðasta samhengi.