Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

Pólitísk ábyrgð á Íslandi.

[15:46]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. „Svo virðist sem skilningur á merkingu hugtaksins „pólitísk ábyrgð“ sé út og suður“, sagði heimspekingurinn Henry Alexander Henrysson, með leyfi forseta, við fréttamiðilinn Vísi um daginn, og sagði enn fremur að það væri alvarlegt mál þegar ráðamenn vísuðu til hugtaksins án þess að nokkur skilningur á merkingu þess væri fyrir hendi. Í viðtalinu var Henry Alexander að vísa til orða hæstv. forsætisráðherra og hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra um að ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra hafi axlað pólitíska ábyrgð vegna sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka í vor. Sjálf á ég mjög erfitt með að skilja hvað hæstv. ráðherrar áttu við þegar þeir sögðust hafa axlað pólitíska ábyrgð. Því eru fyrstu spurningar mínar í þessari sérstöku umræðu mjög einfaldar: Hvernig skilgreinir hæstv. forsætisráðherra pólitíska ábyrgð? Hvernig telur forsætisráðherra að kjörnir fulltrúar axli pólitíska ábyrgð? Aukaspurningin í þessu samhengi er: Hvernig í ósköpunum hefur ríkisstjórnin axlað pólitíska ábyrgð á bankasölunni?

Forseti. Hugtökunum armslengd og armslengdarsjónarmiði hefur einnig verið slengt fram út og suður í þeim tilgangi að koma sér hjá því að axla pólitíska ábyrgð. Talað er um að Bankasýslan sé sjálfstæð stofnun sem vinni í armslengd frá ráðherra og því sé í rauninni ekkert sem úrskeiðis fór varðandi bankasöluna fjármálaráðherra eða ríkisstjórninni að kenna. Skuldinni er skellt á Bankasýsluna, sem þó er undirstofnun ráðherra og í raun alls ekki svo sjálfstæð.

Hæstv. forsætisráðherra sagði einmitt í viðtali við Vísi á dögunum, með leyfi forseta:

„Fyrst og fremst er ég bara vonsvikin yfir sjálfri framkvæmdinni, eitt er verðið og hverju munar í þeim efnum. En fyrst og fremst er ég vonsvikin yfir þeim áhrifum sem þetta getur haft á traust hér á landi.“

Hér virðist mér hæstv. ráðherra vera að útvista ábyrgðinni á framkvæmdinni til Bankasýslunnar að öllu leyti og ráðherrann lýsir yfir vonbrigðum yfir þeim áhrifum sem framkvæmd Bankasýslunnar hafi á traust hér á landi.

En er það rétt, virðulegi forseti? Hvað þýðir eiginlega þessi armslengd, sér í lagi í þessu tilviki? Getur forsætisráðherra útskýrt það? En aftur vitna ég í Henry Alexander, en hann sagði í sama viðtali, með leyfi forseta:

„Pólitísk ábyrgð felst í því að maður geti svarað fyrir — fært rök fyrir — þeim ákvörðunum sem maður ber ábyrgð á. Hér skipta „armlengdarsjónarmið“ engu því að ábyrgðinni er ekki útvistað.“

Skipulagt ábyrgðarleysi eða ábyrgðarútvistun, eins og ég kýs að kalla þessa háttsemi ríkisstjórnarinnar, er viðvarandi vandamál í íslenskum stjórnmálum. Hver bendir á annan og enginn tekur raunverulega ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut. Gott dæmi um þetta er æpandi og augljóst vanhæfi fjármálaráðherra til þess að selja pabba sínum hlut í Íslandsbanka. Fjármálaráðherrann sagði að það hefði ekki verið nokkurt einasta tilefni til að kanna hæfi sitt gagnvart kaupendum í ferlinu vegna þess að hlutunum hafi verið úthlutað af Bankasýslu ríkisins samkvæmt hlutlægum mælikvörðum og þar af leiðandi komi vanhæfisreglur stjórnsýsluréttar bara ekki einu sinni til skoðunar, en vissulega eigi Bankasýslan að gæta að sínu hæfi. En framkvæmdastjóri Bankasýslunnar fór bara hlæja þegar ég spurði hann á opnum fundi hvort þeir hafi ekki átt að gæta að hæfi sínu. Þeir gáðu ekki einu sinni hver var á bak við öll þessi hlutafélög sem buðu í hluti og litu alls ekki svo á að þeir bæru nokkra ábyrgð á því að gæta að hæfi sínu, heldur ættu einhverjir söluaðilar úti í bæ að gera það. Svo bættu þeir við að auðvitað hafi þetta ekki verið hlutlægir mælikvarða heldur einmitt huglægir, meira í ætt við list en vísindi, eins og við munum.

Hæstv. forsætisráðherra svaraði spurningu minni um hvort ráðherra, þ.e. fjármálaráðherra, hafi átt að gæta að hæfi sínu við söluna með klassískum útúrsnúningi; að það væri nú óeðlilegt ef fjármálaráðherra hefði verið að handvelja kaupendur að bankanum, sem hefur aldrei nokkru sinni verið til umræðu í þessu máli. Og menningar- og viðskiptaráðherra virðist standa í þeirri trú að fjármálaráðherra hljóti nú að hafa gætt að hæfi sínu þótt hann hafi sagt það skýrt og skilmerkilega að það hafi hann ekki gert.

Hér er hringekja ábyrgðarleysis, virðulegi forseti. Það kannast enginn við að bera ábyrgð á því að gæta að því að það verði ekki hagsmunaárekstrar við sölu á ríkiseignum, að gæta að því að rýra ekki traust almennings gagnvart sölu á ríkiseignum. Ber enginn ábyrgð á því, virðulegi forseti? Hver ber ábyrgð á því?

Þetta dæmi gengur ekki upp, virðulegi forseti, og það er viljandi gert. Lokaspurningin til hæstv. forsætisráðherra er því þessi: Hver ber pólitíska ábyrgð á því að fjármálaráðherra selji ekki nákomnum ættingjum sínum ríkiseignir á afslætti?