Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

Pólitísk ábyrgð á Íslandi.

[15:51]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að eiga frumkvæði að þessari umræðu því að það er ágætt að fá tækifæri til að ræða hér í þingsal ákveðnar grunnstoðir í stjórnskipuninni. Ef við förum inn í þetta málefni, ráðherraábyrgð, þá skiptum við henni jafnan upp í tvenns konar ábyrgð. Annars vegar hina lagalegu sem stundum er kölluð refsiábyrgð og um hana er fjallað í lögum um ráðherraábyrgð og getur virkjast ef þingið ákveður að sækja ráðherra til saka fyrir landsdómi. Hins vegar höfum við pólitíska ábyrgð og það má segja að pólitísk ábyrgð sé liður í hinni lýðræðislegu umboðskeðju sem á endanum rekur sig til kjósenda, eins og við vitum, þangað sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar sækja umboð sitt. Þingmenn hafa það hlutverk að veita framkvæmdarvaldinu aðhald en á endanum eru það kjósendur sem dæma ráðherra og aðra kjörna fulltrúa af verkum sínum en á milli kosninga hefur þingið hins vegar fjölmörg tæki til að kalla eftir pólitískri ábyrgð ráðherra á embættisverkum sínum. Við getum sagt að pólitísk ábyrgð birtist í sinni ýtrustu mynd í því að ráðherra missi embætti sitt vegna vantrausts þingsins. En hér komum við að atriði sem mér hefur þótt áhugavert í þessari umræðu sem hér hefur verið. Þegar horft er til þeirra sem fjallað hafa um þessi mál, t.d. á norrænum vettvangi, þá getur ráðherra axlað pólitíska ábyrgð með ýmsum öðrum hætti. Ég mæli með þessari bók hér um ráðherra og embættismenn, pólitíska ábyrgð og skyldur, eftir Jens Peter Christensen, sem er danskur hæstaréttardómari og einn helsti sérfræðingur Norðurlanda í ráðherraábyrgð. Hann orðar það svo í þessari ágætu bók að þótt ýtrasta form pólitískrar ábyrgðar birtist í því að vantraust sé samþykkt þá geti pólitísk ábyrgð birst í ýmsum myndum, t.d. með gagnrýni á ráðherra í pólitískri umræðu, meðferð mála í þinginu og eftir atvikum með snuprum svokölluðum, og þetta er mín þýðing hér, í áliti þingnefnda.

Þingið býr yfir margvíslegum tækjum til að kalla eftir því að ráðherra svari fyrir embættisfærslur sínar og þar með axli sína pólitísku ábyrgð. Lagaumgjörð utan um þetta mikilvæga hlutverk þingsins hefur auðvitað verið verulega styrkt á seinni árum og sérstakur kafli settur inn í þingskapalög um efnið, nefndakerfi þingsins styrkt með hliðsjón af möguleikum þess til að rækja þetta hlutverk sem best og sérstakri nefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, falið þetta hlutverk eins og við þekkjum, þetta lykilhlutverk. Þá hafa verið sett sérstök lög um rannsóknarnefndir Alþingis sem hafa að geyma málsmeðferð slíkra nefnda ef þingið telur tilefni til að setja þær á fót.

Í því tilviki sem er tilefni þessarar umræðu, hvort fjármálaráðherra hafi axlað pólitíska ábyrgð hvað varðar sölu á Íslandsbanka, hef ég bent á það og hv. þingmaður gagnrýnt að ráðherra hafi staðið skil á gjörðum sínum gagnvart þingi og þjóð og ekkert dregið undan í því að svara fyrir málið. Sú umræða stendur raunar enn þá. Eftirlit Alþingis er með öðrum orðum í fullri virkni og ég get ekki séð annað en að ráðherrann hafi þar verið fús að svara fyrir sínar gjörðir og raunar átt frumkvæði að því að kalla eftir því að þær séu teknar til skoðunar. Það hefur hins vegar ekki komið neitt fram í þeirri miklu rýni sem þegar hefur átt sér stað sem kallar á að ýtrasta form pólitískrar ábyrgðar sé virkjað, þ.e. að ráðherrann segi af sér embætti eða hann hafi misst meirihlutastuðning á Alþingi vegna þessa máls.

Hv. þingmaður ræðir hér armslengd. Það liggur eftir minni bestu vitund ekki fyrir ein viðurkennd skilgreining á því hugtaki en hugtakið má rekja til hugmyndafræðinnar um góða stjórnarhætti og í sinni einföldustu mynd má skýra það þannig að í samhengi opinberrar stjórnsýslu feli hugtakið í sér fjarlægð á milli stefnumótunar og framkvæmdar í því skyni að koma í veg fyrir að stjórnmál hafi óæskileg áhrif á faglega stjórnun og rekstur. Fyrir því eru iðulega þau rök höfð að stuðla að því að fagmennska ráði för og traust sé borið til ákvörðunar. Hugmyndafræði armslengdarinnar er alltumlykjandi í lögunum um Bankasýsluna sem og í lögum um sölu á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum og raunar í regluverkinu öllu um fjármálamarkaðinn. Þetta birtist t.d. í því hvernig staðið er að skipun stjórna fjármálafyrirtækja þar sem ráðherra kemur hvergi nærri. Þá birtist armslengdin í því að til sé sérstök stofnun sem hefur það hlutverk sem Bankasýslan hefur og ég þarf ekki að fara yfir hér.

Þessi hugmyndafræði hefur sætt gagnrýni fyrir að hún geti leitt af sér rofna ábyrgðarkeðju. Það hefur heyrst til að mynda í tengslum við bankasöluna. Það er auðvitað ekki markmiðið með reglum um armslengd því að það er ætíð þannig að ráðherra hefur tilteknar stjórnunar- og eftirlitsheimildir með stofnunum sem undir hann heyra, jafnvel þó að löggjafinn ætli þeim tiltekið sjálfstæði. Hversu ákveðið og í hvaða mæli ráðherra beitir slíkum heimildum er svo mismunandi. Eins og ég hef sagt í samhengi bankasölunnar þá hef ég fullan skilning á því að hæstv. fjármálaráðherra hafi talið rétt að umgangast þær heimildir af varfærni í ljósi þess hvernig löggjafinn hefur búið að regluverki um bankasölu.

Hv. þingmaður fór nú ekki út í siðareglur en mér finnst mikilvægt að halda því til að haga að forsætisráðuneytið veitir eingöngu ráðgjöf um túlkun siðareglna en hefur ekki eftirlit með framfylgd þeirra. Það er ljóst að það er ekki hlutverk forsætisráðherra eða starfsfólks forsætisráðuneytisins að komast að niðurstöðu um það hvort siðareglur eru brotnar (Forseti hringir.) en þeirri ráðgjöf sem ég vitnaði hér til er sinnt af sérfræðingum í forsætisráðuneytinu en ekki af sjálfum ráðherranum hverju sinni.