Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

Pólitísk ábyrgð á Íslandi.

[16:00]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Ég heyri í umræðunni að efnisatriði um sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka eru hér talsvert rædd þannig að ég kem kannski nánar inn á þau atriði í minni seinni ræðu hér. En núna ætla ég að halda mig við aðalumfjöllunarefnið sem er pólitísk ábyrgð sem er að mínu viti örlítið erfitt að festa hönd á hvað nákvæmlega felst í og eflaust sjáum við pólitíska ábyrgð með mismunandi hætti hér. Einn aðspurður orðaði það svo, með leyfi forseta: „Er pólitísk ábyrgð ekki það, þegar manni finnst að andstæðingur sinn þurfi að segja af sér þegar hann hefur ekki brotið lög og mögulega ekki gert neitt siðferðislega ámælisvert?“ Það má vera, en samt sem áður höfum við nýleg dæmi um þingmenn og ráðherra sem hafa annars vegar gerst brotlegir við siðareglur og hins vegar við lög án þess að segja af sér þrátt fyrir að t.d. þeirri sem hér stendur hafi mögulega fundist tilefni til þess í báðum þeim tilfellum. En það skiptir bara engu máli hvað mér, pólitískum andstæðingi þeirra, finnst um það. Það skiptir bara engu máli hvað mér gæti mögulega fundist um það.

Forseti. Mér þykir nefnilega að það sé alla vega hægt að slá því föstu að pólitísk ábyrgð er ekki og má ekki vera skilgreind út frá óskum, sjónarmiðum og skoðunum pólitískra andstæðinga. Það er marklaust, sama hversu hátt og oft þeim óskum er haldið á lofti. En hins vegar er það fólkið í landinu sem má og á að hafa óskir og sjónarmið um hver eigi að bera pólitíska ábyrgð á gjörðum sínum og það er gert í kosningum. Ráðherrar og þingmenn mæta kjósendum sínum með reglulegu millibili. Það er langmikilvægasta prófraun pólitískrar ábyrgðar og eini sanngjarni mælikvarði pólitískrar ábyrgðar, eins furðulega og niðurstaða kjósenda kann oft að virðast pólitískum andstæðingum.