Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

Pólitísk ábyrgð á Íslandi.

[16:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Kjarni íslenskrar stjórnskipan er þessi: Ríkisstjórnin ber ábyrgð á öllum sínum verkum. Tæknileg atriði breyta ekki því hvar pólitíska ábyrgðin liggur í erfiðum málum ríkisstjórnarinnar hverju sinni. Hún þarf öll að svara fyrir það því að völdum fylgir ábyrgð og miklum völdum fylgir mikil ábyrgð. Þetta er kjarninn í lýðræðisskipan nútímaríkja. Ákvarðanir sem eru teknar á vettvangi stjórnmálanna lúta ströngum kröfum. Þær kröfur eru lagalegar jafnt sem pólitískar og siðferðislegar. Það eru sannarlega margir fletir á pólitískri ábyrgð, t.d. að mínu mati að sitja sem fastast í fimm ár án þess að taka á augljósum brotum á lögum af því að jaðarflokkarnir í ríkisstjórn náðu ekki saman með málamiðlunum heldur með því að útiloka stærstu mál hvors annars. Það má spyrja: Telur forsætisráðherra að hún sýni pólitíska ábyrgð þegar ríkisstjórn hennar hótar að flytja ábyrgð ríkissjóðs yfir á aldraða? Heitir það að axla siðferðislega ábyrgð þegar ríkisstjórn hennar eykur skuldir ríkissjóðs í mesta hagvexti síðari ára? Telur forsætisráðherra að hún sýni pólitíska ábyrgð þegar hún, þvert á aðvaranir fjármálaráðs, notar tímabundinn tekjuauka vegna viðskiptahalla til að auka útgjöld ríkissjóðs í stað þess að greiða niður skuldir? Eða þegar hún situr með hendur í skauti eftir að hæstv. umhverfisráðherra lýsti því yfir að Ísland hefði dregist aftur úr þeim þjóðum sem við berum okkur helst saman við í loftslagsmálum? Telur forsætisráðherra að hún sýni pólitíska ábyrgð þegar hún hefur setið í fimm ár og ekki enn kynnt áætlun um hvernig afla á orku til þess að ná markmiðum stjórnarsáttmálans um grænan hagvöxt og orkuskipti, þegar hún hefur setið í fimm ár án þess að tryggja virka þjóðareign fiskveiðiauðlindarinnar með ákvæðum um eðlilegt auðlindagjald fyrir tímabundinn nýtingarrétt? Á endanum felst pólitíska ábyrgðin í því að útiloka í rauninni pólitíkina í pólitísku samstarfi og ríghalda í kyrrstöðuna.