Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:01]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég fagna því mjög að hæstv. ríkisstjórn hafi fallist á að hrinda í framkvæmd hluta af þeim kjarapakka sem við í Samfylkingunni kynntum í síðustu viku, m.a. að hækka eignaskerðingarmörk um akkúrat 50%, eins og við lögðum til, og efla húsnæðis- og barnabótakerfið um nánast sömu fjárhæðir. Það vantar bara leigubremsuna. Hins vegar er það áhyggjuefni að ríkisstjórnin skuli ekki treysta sér til að afla nýrra tekna til að vega upp á móti þensluáhrifunum af þessum útgjöldum og þannig auka á hallareksturinn, jafnvel þótt verðbólguspár séu dekkri fyrir næsta ár og stýrivextir hærri en þegar frumvarpið var upphaflega lagt fram. Það er því verið að auka enn á misræmi tekna og gjalda og er engu líkara en að stjórnarmeirihlutinn sé beinlínis að grátbiðja um að verðbólga haldist áfram mikil og vextir haldist háir. Þetta er glannaskapur í ríkisfjármálum, bendir ekki til þess að stjórnarmeirihlutinn sé meðvitaður um sína ábyrgð þegar kemur að hagstjórn. Það er nefnilega hlutverk okkar að vinna gegn verðbólgu og einnig að verja fólk fyrir henni. Við munum því halda áfram að tala fyrir ráðstöfunum sem sporna gegn þenslu í hagkerfinu.