Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:12]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ef við ætlum að ráðast í aðgerðir í þágu samfélagsins, í þágu velferðar, í þágu jafnréttis þá þarf fjármögnun að vera fullnægjandi. Hvert sækjum við féð? Jú, til þeirra sem auðveldast eiga með að láta það af hendi í þágu okkar allra. Það er dálítið áhugavert með hugmyndir um hækkun skatta á fjármagnstekjur, sem mér sýnast stjórnarliðar allir sem einn ætla að fella hér og nú, að í kosningastefnu tveggja af þremur stjórnarflokkanna kvað einmitt á um hækkun fjármagnstekjuskatts. Það var fyrir ári. Hvað breyttist í millitíðinni? Af hverju er allt í einu farið að greiða atkvæði gegn slíkum breytingum á sama tíma og aðalaukning í þágu tekjuöflunar er á neyslu einstaklinga? Eru það breiðu bökin, allur almenningur, en ekki fólkið sem er í efstu tekjutíundinni og hefur meiri hluta síns auðs af fjármagnstekjum? (Forseti hringir.) Þetta er ekki í samræmi við réttlætisvitund almennings (Forseti hringir.) og ekki einu sinni í samræmi við vitund tveggja stjórnarflokkanna um það hvað taldist eðlilegt fyrir ári.