Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:31]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V):

Forseti. Áherslur Viðreisnar snúa að þeirri óheillaþróun sem núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa lagt grundvöll að á undanförnum sex árum varðandi hallarekstur á ríkissjóði og gegndarlausri skuldasöfnun. Þessari þróun þarf að snúa við en við vitum að það er erfitt að skera niður og annaðhvort skerum við niður eða öflum meiri tekna. Tillögur Viðreisnar hafa snúið að því að afla meiri tekna. Hvernig gerum við það? Fyrri tillagan sem hér er lögð fram og við erum nú að greiða atkvæði um snýr að grænum sköttum. Ísland hefur lofað að axla ábyrgð í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með metnaðarfullum áætlunum. Aðgerðirnar hafa hins vegar látið á sér standa. Sá geiri sem stendur fyrir mestri losun, stóriðjan, hefur hingað til sloppið með þær lágmarkskröfur sem þátttaka Íslands í alþjóðlegu samstarfi krefst. Við gætum gert betur. Tillögur Viðreisnar snúast um að gera sömu kröfu til stóriðjunnar og gerðar eru til almennings og annarra atvinnugreina. Sá sem mengar á að borga.