Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Þau undur og stórmerki gerðust um árið að ETS-kerfið svokallaða fór að virka. Þetta sameiginlega viðskiptakerfi um losun gróðurhúsalofttegunda fór að skila þeim efnahagslega hvata sem er nauðsynlegur til að það virki til að draga úr losun á EES-svæðinu. Það skilar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu tekjum í vasa ríkissjóðs á næsta ári — 800 milljónir sem ættu að nýtast til grænna aðgerða eins og var upphaflega lagt upp með í frumvarpi til loftslagsmála. Þá var lagt til að helmingur af þessum tekjum myndi renna til loftslagssjóðs. Loftslagssjóður fær hins vegar samkvæmt frumvarpinu 100 milljónir á næsta ári. Formaður loftslagssjóðs kallaði eftir gjörðum frekar en orðum í sumar þegar hún benti á hversu ofboðslega aðþrengdur rekstur sjóðsins væri með þessar 100 milljónir. Það væri svo ofboðslega mikið af frábærum umsóknum að lausnum sem gætu skilað okkur (Forseti hringir.) stórkostlegum árangri í loftslagsmálum sem væri ekki hægt að fjármagna vegna þess að peningurinn væri skorinn svo mikið við nögl. (Forseti hringir.) Þess vegna leggjum við til hér síðar í dag, og ég hvet þingmenn til að styðja það, að hækka framlög til loftslagssjóðs upp í það sem við erum að græða á ETS-kerfinu, láta stóriðjuna í Evrópu borga fyrir lausnirnar.