Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[20:31]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Hér erum við að berjast við að reyna að gera hlutina það vel úr garði fyrir ríkisstjórnina þannig að þau eigi gott með að skilja hvað við erum að tala um þegar við óskum eftir því í þessari breytingartillögu, með leyfi forseta, að við 1. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi:

„Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Þeir einstaklingar sem eiga rétt á greiðslu ellilífeyris skv. 17. gr. á árinu 2022 og hafa óskertan ellilífeyri almannatrygginga skulu fá eingreiðslu að fjárhæð 60.300 kr. Hafi lífeyrisþegi fengið greiddar bætur hluta úr ári skal eingreiðslan vera í hlutfalli við greiðsluréttindi hans á árinu. Eingreiðsla þessi, sem skal innt af hendi eigi síðar en 31. desember 2022, skal ekki teljast til tekna greiðsluþega og ekki leiða til skerðingar annarra greiðslna.“

Þarna erum við búin að ná að smætta þetta þannig niður að það ætti að vera öllum þægilegt og auðvelt að vinna úr málinu. Við erum einungis að tala um það eldra fólk sem er með óskertan ellilífeyri, sem sagt langfátækasta fólkið. Það er bragur á því, virðulegi forseti, að við tökum saman utan um þetta mál nákvæmlega núna og segjum já. Ég óska eftir nafnakalli við atkvæðagreiðslu um tillöguna.