Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[20:51]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, annars vegar og breytingu á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, hins vegar. Mín pæling varðandi þessar lagabreytingar er til að byrja með sú að umsagnaraðilar lýstu yfir ánægju með frumvarpið og þá sérstaklega breytinguna á lögum um hlutafélög. Ég tek undir það með þeim að þetta sé alveg ágætisviðbót. En við höfum lent í því að þurfa að skítamixa til einhverja löggjöf sem samræmist síðan ekki öðrum lögum. Það er náttúrlega hlutverk okkar sem löggjafa að sjá til þess að öll lög séu samrýmanleg og stangist ekki á við stjórnarskrá og þess háttar, ég þarf nú ekki að fara að tíunda hlutverk löggjafans hér. Umsagnaraðilar gerðu athugasemd við 1. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Í félögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði er heimilt að kveða á um það í samþykktum að hluthafi skuli tilkynna félaginu þátttöku sína á hluthafafundi innan tiltekins frests fyrir fundinn. Sá frestur skal þó eigi vera lengri en ein vika. Fundarboð skal innihalda upplýsingar um skráningardag. Atkvæðisréttur hluthafa á fundinum fer eftir fjölda hluta á því tímamarki þegar skráningarfresti lýkur.“

Ég fagna þessari breytingu en ég tók einnig til máls í 2. umr. um þetta frumvarp og ég ætla bara að fá að ítreka áhyggjur mínar af því að þetta gæti verið útilokandi fyrir óskráð félög, þau halda náttúrlega líka hluthafafundi. Við þurfum að sjá til þess að lögin nái til allra félaga en ekki bara til skráðra félaga á skipulegum markaði. Ég varpaði líka þeirri spurningu fram hvort þessi umrædda breyting samrýmdist 3. mgr. 70. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995. Ég er ekki enn búin að fá svar við þeirri spurningu enda var ég ekki í nefndinni sem afgreiddi þetta lagafrumvarp og var ekki á þingi þegar það var fyrst lagt fram. Við sem löggjafi þurfum að velta öllum steinum og sjá til þess að lögin séu samrýmanleg öðrum lögum og þetta er bara mikilvæg spurning sem ég varpa hér fram.

Að öðru leyti fagna ég frumvarpinu enda mikilvægt að nútímavæða fundarhöld félaga á hlutafélagamarkaði og einkahlutafélagamarkaði, hvort sem það eru skráð félög eða óskráð félög. Eins og ég hef tíundað hér áður eru náttúrlega að jafnaði allir með fundi þannig að það þarf að sjá til þess að jafnræðis sé gætt við setningu þessarar löggjafar.

Í 3. gr. segir, með leyfi forseta.

„Við 1. mgr. 88. gr. a laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Til aðalfundar í félögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði skal boða minnst þremur vikum fyrir fund og lengst sex vikum fyrir fund.“

Ég tel að þetta ýti undir gagnsæi þegar kemur að aðalfundum í félögunum enda er félagaréttur einhvern veginn ekki eitthvað sem okkur er öllum mjög kunnugt um, þetta er allt eitthvað svo fjarlægt okkur sem störfum ekki á þessu sviði, störfum ekki á þessum markaði. Þetta er bara annar liður í að tryggja gagnsæi og góða upplýsingagjöf til hluthafa félagsins. Ef fundur er boðaður minnst þremur vikum fyrir fund og lengst sex vikum fyrir fund þá erum við komin með einhvern ákveðinn tímaramma þar til hægt er að halda þennan fund, ákveðinn tíma sem gefst til að veita hluthöfum upplýsingar um hvað fari fram á þessum fundi. Eins og ég tók fram hér í 2. umr. um þetta lagafrumvarp í síðustu viku þá eru ákveðnir hlutir sem þurfa að koma fram og þurfa að vera aðgengilegir fyrir hluthafa eða þá sem sækja þennan aðalfund fyrir fund. Þetta gefur þá góðan tímafrest til að sjá til þess að allir séu með þau gögn og þær upplýsingar sem þarf til þess að fundurinn geti átt sér stað og farið fram og ég fagna því auðvitað rosalega mikið.

Að öðru leyti væri ég til í svar við þeirri spurningu sem ég varpaði hér fram, virðulegi forseti. Annars fagna ég þessu. Áfram gakk. Áfram löggjafinn. Við þurfum bara að passa að þetta samræmist núverandi löggjöf.