Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[21:13]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að leiðrétta mig hérna. Ég fékk upplýsingar frá aðstoðarmanni þingflokksins um að fyrirspurn mín til hæstv. matvælaráðherra um veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar hefði borist í dag. Ég bíð þá eftir tveimur fyrirspurnum, annars vegar fyrirspurn um útselda vinnu sérfræðinga Stjórnarráðsins og opinberra háskóla, frá 17. nóvember sl., og fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki. Ég fagna því að hafa fengið svar við fyrirspurn minni til hæstv. matvælaráðherra um veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar en ég tel mikilvægt, þar sem við þingmenn erum nú önnum kafin, að okkur verði tilkynnt það formlega með tölvupósti eða við séum látin vita af því að svar við fyrirspurn okkar sé komið þar sem við getum kannski ekki alltaf verið hérna úti á gangi og grúskað í bökkum til að sjá hvort það sé komið svar eða ekki. Ég legg þessa vinnureglu til. En ég bíð spenntur eftir að fá svör við fyrirspurnum, ekki síst varðandi eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki þar sem ég spyr m.a. um það hvernig unnið er að markmiðinu um að stuðla að samkeppni á fjármálamarkaði. Það virðist fara lítið fyrir því markmiði.

Annað sem mig langar að koma inn á og taka undir með félögum mínum (Forseti hringir.) — en ég sleppi því, kem að því seinna.