Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[21:45]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir svarið. Þarna hittir hann mig vel fyrir þegar hann er að tala um raunverulega eigendur. Það er svolítið sérstakt að t.d. þegar við erum að selja banka, hvernig svo sem við lítum á söluna sem slíka, höfum við ekki hugmynd um hverjir það eru sem eiga hluti sem eru skráðir undir 10%, eða 9,999%. Við höfum ekki hugmynd um hverjir eru á bak við það, hverjir eru raunverulegir eigendur; ekki frekar en við höfum hugmynd um það þegar einhverjir milliliðir úti í heimi eru að fjárfesta fyrir aðra. Við vitum aldrei hver er á bak við og hver er að biðja þessi félög um að fjárfesta fyrir sig. Af því fjármagni sem t.d. kom erlendis frá í sambandi við söluna á Íslandsbanka — við höfum bara ekki hugmynd um hverjir eru raunverulegir eigendur þar á bak við. Mér þykir það með hreinum ólíkindum og það er eitthvað sem við verðum bara hér á hinu háa Alþingi að breyta. Þess vegna liggur beinast við að spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái það fyrir sér og hvernig væri best að breyta þessu þannig að allt sé uppi á borðum. Það á ekkert að vera að pukrast með það hvort þú átt 2% í Íslandsbanka eða 1,5% eða hvaðeina annað sem er. Við eigum rétt á því, sérstaklega þegar þetta eru okkar eigin eigur, að fá að vita hver það er sem er að kaupa og fyrir hve mikið og allt það, þetta á bara að vera uppi á borðum. Við erum endalaust að tala um gegnsæi og annað slíkt en að þessu leyti myndi ég segja að við ættum þó nokkuð langt í land með að fá að sjá raunverulega eigendur, t.d. í viðskiptum með okkar stærstu ríkiseignir eins og bankana okkar.