Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[22:07]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásthildi Lóu Þórsdóttur fyrir fyrra andsvarið og áhugaverða spurningu. Það vakti einmitt athygli mína þegar ég var að kynna mér þetta mál, því eins og ég nefndi áðan er ég ekki í efnahags- og viðskiptanefnd sem fjallaði um málið, að það hafi ekki borist fleiri umsagnir um það þar sem þetta snertir á hlutum sem ég held að séu okkur öllum hugleiknir, sérstaklega eftir það ástand sem við höfum búið við síðustu misserin í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19. En það sem vakti eiginlega enn frekar áhuga minn, og mér fannst athyglisvert og ég gerði að umtalsefni í ræðu minni áðan, var að þrátt fyrir að ekki hafi borist fleiri umsagnir, og þær fáu umsagnir sem hafi borist hafi samt sem áður gert athugasemdir við frumvarpið og tillögur með mjög skýrum hætti, þá er þetta ákveðið með takmörkuðum rökstuðningi og í rauninni engum rökstuðningi og þeim sjónarmiðum sem þar komu fram ekki raunverulega svarað og algjörlega skautað fram hjá þeim tillögum sem þar eru lagðar til. Það er engin umræða sem fer fram akkúrat um kosti og galla þessa fyrirkomulags, að halda hluthafafundi rafrænt yfir höfuð, hvaða áhættu það hefur í för með sér, hvaða vankantar eru á því. Eins og nefnt er í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar er strax, bara með þessari heimild út af fyrir sig, verið að takmarka í rauninni möguleika hluthafa á að nýta þau réttindi sem þeir hafa í krafti hlutar síns. En það er í rauninni ekkert fjallað um þetta og engin umræða hefur farið fram um þetta. Þannig að ég þakka bara hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Ég hef svo sem ekki beina skoðun á hvort það sé ráðlegt að heimila þetta eða ekki. En þetta er einn af þeim þáttum sem hefði átt að ræða í meðferð málsins í nefndinni og hér í þingsal.