Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[22:09]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, eins og hv. þingmaður bendir á höfum við séð kosti rafrænna funda í gegnum Covid, þeir björguðu ansi miklu og komu sér alveg svakalega vel, svo ekki sé meira sagt. En það er spurning líka hvort við ætlum að taka það alla leið, hvort við séum hugsanlega að taka þetta of langt vegna þess að við vitum það öll að fundir eru öðruvísi „live“, með leyfi forseta, en í gegnum skjáinn. Það er bara öðruvísi, það er öðruvísi dýnamík sem myndast á milli fólks en í gegnum tölvuna. Ég velti fyrir mér: Er hætta á að einhver sitji til hliðar og hafi áhrif á ákvarðanir einhvers sem situr á hluthafafundi, einhver sem á ekki að vera þar en er það og er að fylgjast með? Það eru alls konar svona hlutir sem má alveg velta fyrir sér og ég tel ástæðu til að spá aðeins í þetta en í sjálfu sér má kannski segja að þetta ætti að vera undir hverju félagi komið. En engu að síður held ég að það séu margir hlutir þarna sem þarf að velta fyrir sér.

(Forseti (LínS): Forseti minnir á að þingmálið er íslenska.)