Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[22:16]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir andsvarið. Þetta er eitthvað sem ég hnaut um akkúrat líka þegar ég var að kynna mér þetta mál. Það er í rauninni tekið á þessu, eins og hv. þingmaður nefnir, í greinargerð með frumvarpinu og á fleiri stöðum, bæði í greinargerð með lagafrumvarpi frá þessum stjórnarmeirihluta og í nefndaráliti meiri hlutans, en það er óskaplega lítið um skýringar eða rökstuðning. Í greinargerð með frumvarpinu er þessi saga sem hv. þingmaður fór hér yfir tilgreind og hvað þennan þátt varðar þá segir, með leyfi forseta:

„Hvað sem líður þessum ummælum standa ákveðin rök til þess að hlutafélög geri hluthöfum skylt að tilkynna þátttöku sína á hluthafafundi, þ.m.t. aðalfundi, enda munu þess vera ýmis dæmi úr framkvæmdinni þótt þessi möguleiki sé ekki orðaður berum orðum í lögunum.“

Þetta er allt og sumt sem frumvarpshöfundar hafa um þetta að segja. Ég tek undir með hv. þingmanni að það hefur ekki farið fram nein ítarleg umræða um þetta nema mögulega í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég sit ekki í þeirri nefnd og veit svo sem ekki hvað var rætt þar. En þetta er eitthvað sem ætti kannski erindi hér inn í þingsal vegna þess að við sitjum ekki öll í nefndinni og ef upp koma svona atriði sem vekja spurningar og valda greinilega ágreiningi í umsagnarferlinu, þó að mögulega megi kalla hann smávægilegan, þá er kannski eðlilegt að röksemdafærslan í greinargerð, og í nefndaráliti meiri hlutans sérstaklega, sé ítarlegri, farið aðeins ítarlegar yfir þessi rök sem nefnd eru hérna. Í rauninni eru engin rök nefnd, hvorki í greinargerðinni né í nefndaráliti meiri hlutans.